1.12.10

þakkir

Á laugardaginn hélt ég upp á þakkargjörðina, bandarískan sið sem ég flutti með mér heim fyrir nokkrum árum. Ég þakkaði fyrir ýmislegt, en ég verð að viðurkenna að mér datt ekki í hug að nokkrum dögum síðar myndi ég þakka kjósendum - hluta þjóðarinnar - fyrir að treysta mér til þess að taka þátt í endurmótun stjórnarskrár lýðveldisins. En sú er reyndin og eftir að hafa verið á spani að tala við fólk út um allan bæ, hlaupa á milli funda og fjölmiðla, þá langar mig að setja hér inn þakkir til þeirra sem studdu mig, og þeirra sem tóku þátt í þessari kosningu. Ég fann fyrir miklum velvilja og stuðningi hjá fólki sem ég talaði við í þessu ferli. Foreldrum mínum og vinum, sem studdu mig óspart, þakka ég alveg sérstaklega.

Ég er ekki aðdáandi persónukjörs og mér sýnist niðurstaðan af þessum kosningum styðja við það sem ég óttaðist, að þekktir einstaklingar ættu auðveldara með að komast að. Vegna þess að starf mitt og þátttaka mín í félagsstörfum hafa falið í sér nokkra virkni í fjölmiðlum tók ég þá ákvörðun að auglýsa ekkert. Ég notaði Facebook og tölvupóst, en hringdi örfá símtöl.

Vinur minn hannaði fyrir mig lítinn einblöðung sem ég sendi stuðningsfólki í tölvupósti og sumt þess prentaði hann út heima hjá sér og dreifði. Ég eyddi því ekki krónu í framboðið, fyrir utan símreikning og bensínkostnaðinn sem hlaust af því að keyra á milli til að safna undirskriftum.

Ég geri mér grein fyrir því að fyrirliggjandi er vandasamt verk og ekki eru allir sammála um það að hefjast eigi handa við það yfir höfuð. Sú ákvörðun liggur þó fyrir og ég heiti því að leggja mitt af mörkum til þess að niðurstaðan verði í samræmi við skilaboð þjóðfundarins og í sátt við þjóðina.
Setja á Facebook

26.11.10

framboð til stjórnlagaþings

Eins og þú vonandi veist, þá er ég í framboði til stjórnlagaþings. Ég hef ekki keypt auglýsingar og ætla mér ekki að gera það, heldur treysta kjósendum til að leggja mat á framboð mitt út frá markmiðum mínum og þeim sjónarmiðum sem ég stend fyrir. Þess vegna hef ég reynt að virkja kjósendur sem þekkja mig og treysta mér, og beðið þá að aðstoða mig við að koma sjálfri mér á framfæri, dreifa kynningarefni í kringum sig auk þess að mæla með mér við vini sína og kunningja.

Hér eru slóðir inn á kynningarsíður. Undirsíða þessa bloggs, http://siljabara.eyjan.is/p/frambo-til-stjornlagaings.html skýrir af hverju ég bauð mig fram til stjórnlagaþings. Á http://uni.hi.is/sbo er hægt að finna fræðilegt efni sem ég hef skrifað og tengla á útvarpsþætti mína um alþjóðamál, fjölmiðlaumfjallanir o.fl.og á http://www.facebook.com/pages/Silju-Baru-a-stjornlagabing/168566713159547 er stuðningsmannasíða á Facebook. Þar kynni ég framboðsfundi og annað efni sem ég er að senda frá mér.

Ég minni á að það skiptir miklu máli hvernig þú raðar á kjörseðilinn - og ég vona að eftir að kynna þér hugmyndir mínar og nálgun að stjórnlagaþinginu íhugirðu að setja mig í eitt efstu sætanna. Ef ég fæ fleiri atkvæði en þarf til að ná kjöri, þá nýtist hluti atkvæðis þíns þeim sem næstir koma. Nái ég ekki kjöri fer atkvæðið óskipt til þess sem næstur er á seðlinum.

Að lokum langar mig að hvetja þig til að kjósa. Góð kjörsókn mun auka trúverðugleika stjórnlagaþingsins. Sá trúverðugleiki verður enn meiri ef inn á þingið velst fjölbreyttur hópur fólks, svo mig langar að hvetja þig til að hugsa um konur og karla, aldur, búsetu og fjölbreytileika af öllu tagi þegar þú kýst.

Takk fyrir að taka þér tíma til að lesa þetta - og mætum öll á kjörstað þann 27. nóvember.
Setja á Facebook

25.11.10

16 daga átak og ljósaganga

Í dag, 25. nóvember hefst alþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi. Það má rekja aftur til ársins 1991. Dagsetning átaksins, frá 25. nóvember, alþjóðlegum baráttudegi gegn kynbundnu ofbeldi, til 10. desember, hins alþjóðlega mannréttindadags, var valin til að tengja á táknrænan hátt kynbundið ofbeldi og mannréttindi. Tímasetningin var einnig valin til að leggja áherslu á mannréttindabrotin sem felast í slíku ofbeldi.
Markmið átaksins er að knýja á um afnám alls kynbundins ofbeldis en talið er að þriðjungur kvenna sæti kynbundnu ofbeldi á lífsleiðinni. Þetta er ástæðan fyrir því að ég tel nauðsynlegt að binda athafnaskyldu stjórnvalda til þess að stuðla að jafnstöðu kynjanna í stjórnarskrá.

Upphafsdagur átaksins tengist morðunum á Mirabal-systrunum í Dóminíkanska lýðveldinu, en þær voru myrtar af af Trujillo-stjórninni á þessum degi árið 1960. Dulnefni systranna var Las Mariposas, eða Fiðrildin.

 16 daga átakið hefst með morgunverðarfundi UNIFEM núna klukkan átta og svo er ljósaganga gegn kynbundnu ofbeldi kl. 19 í kvöld og hefst við Þjóðmenningarhúsið. Dagskrána má lesa hér. Þema átaksins í ár er "berjumst gegn ofbeldi gegn konum á átakasvæðum."

Setja á Facebook

24.11.10

Í kvöld: opinn hljóðnemi á Café Haítí

Í kvöld verð ég, ásamt nokkrum öðrum frambjóðendum, með stutta kynningu á Café Haítí. Hvet fólk til að koma og kynna sér málin. Sjá um þennan viðburð á Facebook hér.

Á morgun verður Femínistafélag Íslands svo með opið hús í Hugmyndahúsinu að Grandagarði 2, það er frá kl. 17-20. Sjá um viðburðinn hér, endilega mætið.
Setja á Facebook

friður og alþjóðasamvinna

Mér, eins og mörgum öðrum, var brugðið þegar Ísland lýsti yfir stuðningi við innrás Bandaríkjanna í Írak vorið 2003. Ég hafði þá búið í tíu ár erlendis, og í mér sat alltaf fast að Ísland myndi aldrei fara með stríði á hendur öðrum ríkjum og ég taldi sjálfsagt að í þessu fælist að styðja ekki við hernað annarra ríkja.

Í stjórnarskránni er lítið fjallað um utanríkismál. Í 21. gr. er sagt að forsetinn geri samninga við önnur ríki, og í reynd hafa utanríkismál alltaf verið á hendi framkvæmdavaldsins. Utanríkismálanefnd átti þó upphaflega að fjalla um öll utanríkismál, þótt það hafi aldrei orðið þannig í reynd. Árið 2003 virðist því hafa verið þannig komið að ekki einu sinni meiriháttar ákvarðanir um utanríkismál voru sendar til utanríkismálanefndar. Björg Thorarensen hefur skrifað grein um uppruna utanríkismálanefndar, sem er áhugaverð lesning og hana má nálgast hér fyrir þau sem eru áhugasöm um ítarlegri bakgrunn.

Það þarf að skýra betur markmið Íslands í utanríkismálum. Þessi markmið ættu að vera í samræmi við þá sjálfsmynd sem kemur fram í niðurstöðum þjóðfundar. Sú sjálfsmynd samræmist í mínum huga ekki því að lýsa yfir stuðningi við hernað, heldur mun frekar að við leggjum okkar af mörkum í stuðningi við mannréttindi og uppbyggingarstarf. Þannig ætti að senda sérfræðinga í björgunarverkefni þegar við höfum mikið fram að færa eins og þegar rústabjörgunarsveitin fór til Haítí í upphafi árs. Eins eigum við fjöldann allan af sérfræðingum sem geta komið að mannúðarverkefnum og unnið þannig að þeim markmiðum sem við viljum stuðla að.

Ríkið er ungt og sjálfstæðisbaráttan er lifandi í minni þjóðarinnar. Þjóðfundurinn taldi nauðsynlegt að Ísland væri sjálfstætt og fullvalda ríki sem legði áherslu á samvinnu við önnur ríki. Að mínu mati þarf að kveða á um það í stjórnarskrá að Ísland sé herlaust land. Framkvæmd utanríkismála þarf vissulega að vera á höndum framkvæmdavaldsins, en ég tel þó nauðsynlegt að tryggja það að með meiriháttar ákvarðanir verði farið til utanríkismálanefndar. Skilgreind aðkoma utanríkismálanefndar að tilteknum málum þarf að koma fram í stjórnarskrá - það er eðlileg leið til að tempra vald ólíkra greina ríkisvaldsins.

Stuðningur Íslands við innrásina í Írak vakti mig, eins og marga fleiri til umhugsunar. Ég er sannfærð um það að margir á þingi hefðu viljað breyta umgjörð þessara mála í kjölfarið, en fyrirkomulagið á stjórnarskrárbreytingum tefur stjórnmálaflokkana - þeir eiga of mikilla hagsmuna að gæta. Það er kominn tími til að við ræðum hugmyndirnar sem voru í sambandslögunum 1918, ætlum við að vera hlutlaus, herlaus, eða hvað? Sjálf vil ég leggja áherslu á að við séum friðelskandi þjóð í herlausu landi, sem tekur afstöðu með lítilmagnanum og gegn mannréttindabrotum. Það er verkefni sem þarf að fela bæði framkvæmda- og löggjafarvaldi til að sinna.
Setja á Facebook

22.11.10

aðkoma kvenna að stjórnarskránni

Stjórnarskrár eru ekki samdar á hverjum degi. Margar eru gamlar og voru samdar á þeim tíma sem konur voru ekki taldar til borgara og réttindin sem í þeim birtast eru byggð á sjónarmiðum karlanna sem þá sátu á þingi. Íslenska stjórnarskráin var síðast uppfærð árið 1995 og þá voru konur í hópi þingmanna aðeins 25%. Þó ekki væri nema út frá því sjónarmiði að konur og karlar eigi að fá að hafa jöfn áhrif á mótun grundvallarreglna í samfélaginu, þá er að mínu mati kominn tími til að endurnýja stjórnarskrána. Nú eru konur rétt um 40% þingmanna, hæsta hlutfall sem hefur náðst og ég vona að ný stjórnarskrá verði samin og samþykkt af konum og körlum (svona nokkurn veginn) til jafns.

Það er ekki nóg að muna eftir konunum, eins og Abigail Adams minnti manninn sinn á árið 1776 þegar Bandaríkin voru að verða til. Konur og karlar þurfa að taka þátt. Konur og karlar verða að öðlast jafnan rétt og sá réttur verður að skila þeim jafnri stöðu. Þegar síðast stóð til að endurskoða stjórnarskrána, árið 2006, lagði kvennahreyfingin til nokkrar breytingar. Þær má lesa hér, ásamt greinargerð og í stuttu máli tek ég undir það sem þar stendur. Tryggja þarf öryggi kvenna og karla með friðhelgi einkalífs og vernd gegn ofbeldi á opinberum vettvangi og í einkalífi. Kosningalög geri grein fyrir því hvernig eigi að tryggja jafnt hlutfall kvenna og karla á þingi. Skylda verði að setja í lög aðgerðir til að tryggja jafnstöðu kynjanna - svokölluð athafnaskylda stjórnvalda.

Jafnrétti kynjanna er í mínum huga spurning um mannréttindi. Okkur gefst nú í fyrsta skipti tækifæri til þess að móta stjórnarskrá sem endurspeglar sjónarmið beggja kynja - en til þess þarf að kjósa bæði konur og karla á stjórnlagaþing.
Setja á Facebook

19.11.10

auðlindir þjóðarinnar

Þjóðfundurinn á dögunum lagði áherslu á vernd og nýtingu náttúru Íslands. Þetta er mér hugleikið viðfangsefni, ekki bara náttúra Íslands heldur náttúra og umhverfi í hnattrænum skilningi. Náttúran er ekki okkar eign, hún er fengin okkur til vörslu og við þurfum að huga að velferð komandi kynslóða þegar ákvarðanir um nýtingu eru teknar. Ég vil að sameiginlegar auðlindir landsins verði nýttar í þágu þjóðar, en með hag náttúrunnar og mannkyns í huga. Þá á ég ekki við að hver bæjarlækur eða berjamói verði nýttur í þágu þjóðar, heldur að orkan, vatnið og fiskurinn sé þjóðarinnar, ekki einstaklinga. Með því að nýta auðlindir í þágu þjóðar á ég líka við að innviði samfélagsins megi ekki einkavæða, þannig að fáir græði en allir borgi. Allar auðlindir þarf að nýta á ábyrgan hátt þannig að við eyðum ekki stofnum eða andrúmslofti, og skerðum ekki lífsgæði annarra þjóða með okkar lifnaðarháttum.

Við lifum á breytingatímum og við verðum að stíga varlega til jarðar. Átök vegna umhverfismála verða sífellt meira áberandi í heiminum og fólk þarf að flýja heimili sín vegna breytinga, jafnvel hamfara, sem tengjast umhverfisbreytingum. Þess vegna er mikilvægt að hvert ríki og hver þjóð hugsi um sjálfbærni. Ég vil sjá ákvæði í stjórnarskrá um sjálfbærni og ég vil að við höfum orð Jónasar frá Hriflu í huga, en hann sagði að sumir fossar væru „of góðir til að vera saurgaðir með verksmiðjum“ (Unnur Birna Karlsdóttir, Skírnir 2005). Ég held að þessi orð eigi við um margt fleira en fossa. Við verðum að hugsa til lengri tíma og reyna að læra af sögunni, þótt okkur virðist oft ganga illa að gera það. Í vinnu við nýja stjórnarskrá gefst okkur tækifæri til að sýna að við metum náttúruna sem auðlind í sjálfri sér, ekki bara fyrir þau not sem við höfum af henni.

===

Að öðru: Ég verð á Akureyri í dag, held erindi á ráðstefnu um jafnrétti og friðargæslu seinnipartinn (dagskrána má finna hér). Að henni lokinni ætla ég að fara á Bláu könnuna og býð kjósendum sem vilja hitta mig að kíkja á mig þar milli 16:30 og 18:00.
Setja á Facebook

12.11.10

mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar

Í skilaboðum frá þjóðfundi var mikil áhersla lögð á mannréttindi, og talað um að allir skulu njóta mannréttinda í samræmi við alþjóðlega mannréttindasáttmála. Samkvæmt Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna eru mannréttindi óháð stétt, stöðu, fjölskyldu, trú og menningu. Þau eiga að fylgja okkur, hverju og einu, frá vöggu til grafar og litarháttur, kynferði, þjóðerni eða stjórnmálaskoðun skyldi engu breyta þar um. Tilvist manneskju veitir henni einfaldlega rétt til að njóta mannréttinda til jafns á við aðra, eða eins og segir í 3. grein: „Allir menn eiga rétt til lífs, frelsis og mannhelgi.“ Í inngangsorðum sáttmálans er þetta sagt vera undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum. Þar er jafnframt kveðið á um að mannréttindi skuli vernda með lögum. Að öðrum kosti hlýtur fólk að grípa til þess örþrifaráðs að rísa upp gegn kúgun og ofbeldi.

Mannréttindaákvæðið er að mínu mati það mikilvægasta í stjórnarskránni og á heima fremst í henni. Mannleg reisn skiptir lykilmáli og ég tel nauðsynlegt að taka sérstaklega til samfélagslegra minnihlutahópa og tryggja að þeir njóti réttinda sem við í „meirihlutanum“ teljum sjálfsögð. Þetta tel ég að eigi við um uppruna, kynhneigð og kynvitund, fötlun og fleira og vil að þessir þættir verði settir inn í núverandi 65. gr. sem fjallar um ólíka hópa, frekar en að það vísi til þeirra „að öðru leyti.“ Sú grein ætti síðan að vera í fyrsta kafla stjórnarskrárinnar. Rétt er að benda á að jafn réttur kynjanna kom fyrst inn í þetta ákvæði fyrir 15 árum.

Mannréttindahugtakið þróast mjög í takt við alþjóðasáttmála. Ég vil líta til norskrar fyrirmyndar, þar sem sérstakur mannréttindabálkur er til utan stjórnarskrár, en hefur stjórnarskrárgildi. Í hann er hægt að innleiða alþjóðasáttmála á sviði mannréttinda, sem eru þá rétthærri en landslög stangist þau á. Í Noregi hefur t.d. Barnasáttmálinn verið innleiddur í þennan mannréttindabálk. Með þessu móti þarf ekki að breyta stjórnarskránni í hvert sinn sem við viljum uppfæra skilning okkar á mannréttindum og við tryggjum um leið að mannréttindaákvæði verði æðri landslögum.
Setja á Facebook

11.11.10

íslenskan og stjórnarskráin - áherslur í framboði 1

Á næstu dögum ætla ég að setja inn nokkrar færslur um þá efnisflokka og gildi sem komu út úr þjóðfundinum. Vona að það aðstoði lesendur við að kynna sér áherslur mínar og afstöðu, auk þess sem ég reyni að skýra hvernig þær mótast. Mér þykir ólíklegt að mínar áherslur í heild skili sér, en lesendur geta þá séð hvernig ég mun nálgast málin.

Þjóðfundur taldi land og þjóð mikilvægan málaflokk í nýja stjórnarskrá. Í þessum efnisflokki er fjallað um fullveldi og sjálfstæði Íslands, tungu, menningu og auðlindir. Með tungunni flytjum við menningararf okkar milli kynslóða og með því að vernda tunguna stuðlum við að framgangi íslenskrar menningar. Ég er þó ekki viss um að ég telji þörf á því að skilgreina íslensku sem þjóðtungu í stjórnarskrá, þótt ég sé ekki á móti því heldur. Það er þó tvennt sem ég myndi vilja tryggja ef íslenskan fær sérstaka stöðu í stjórnarskrá. Í fyrsta lagi má hún að mínu mati ekki vera hafin yfir táknmál heyrnarlausra. Táknmál er móðurmál nokkurs fjölda Íslendinga og þeir eiga að njóta sömu réttinda og við hin, sem heyrandi erum. Í annan stað tel ég nauðsynlegt að tryggja að upplýsingum sé miðlað á helstu tungumálum innflytjenda. Innflytjendur verða líka að fá tækifæri til að læra íslensku. Verði henni veitt sérstaða þarf því að tryggja framboð á íslenskukennslu.

Í þessum niðurstöðum þjóðfundar er einnig fjallað um að stjórnarskrána skuli kynna í skólum. Ég vil ekki einungis kynna stjórnarskrána heldur tryggja að virk og lýðræðisleg borgaraleg menntun verði aðgengileg fyrir alla borgara landsins. Þetta getur stjórnarskráin tryggt, t.d. með stofnun miðstöðvar fyrir borgaralega menntun. Slík stofnun gæti ég ímyndað mér að myndi heyra undir Umboðsmann Alþingis, til að tryggja að pólitísk sjónarmið hverju sinni verði ekki ráðandi heldur þjálfun í lýðræðislegri hugsun og umræðu.
Setja á Facebook

8.11.10

framboð til stjórnlagaþings

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hef ég ákveðið að gefa kost á mér til stjórnlagaþings. Nú er að finna hér á síðunni tengil á fésbókarsíðu sem ég vona að sem flestir kynni sér, og undirsíðu þar sem helstu áherslumál mín og bakgrunnur eru tíunduð. Ég er núna að fara í gegnum niðurstöður þjóðfundar, sem mér sýnast ríma vel við mínar helstu áherslur og mun ræða þær í bloggfærslum hér á næstu dögum.
Setja á Facebook