Ég býð mig fram til stjórnlagaþings. Frambjóðandanúmer mitt er 4987. Ég er núna (í byrjun nóvember) að kynna mér niðurstöður þjóðfundar og sýnist í fljótu bragði að þær séu í góðu samræmi við mínar helstu áherslur. Þjóðfundurinn er mikilvægur hluti af því ferli sem við höfum ákveðið að fara í og nái ég kjöri mun ég leggja mig fram við að byggja á þeim hugmyndum sem þar komu fram.
Helstu stefnumál:
Mannréttindi: Ég vil gjarnan sjá norsku leiðina farna, þar sem hægt er að innleiða alþjóðasamninga á sviði mannréttinda í sérstök mannréttindalög sem hafa stjórnarskrárstöðu (eru lex superior). Jafnrétti kynjanna er mér hugleikið en einnig vil ég að stjórnarskráin viðurkenni sérstöðu samfélagslegra minnihlutahópa og geri ráðstafanir til að koma í veg fyrir að þeir líði fyrir þá sérstöðu.
Félagafrelsi þarf áfram að vera tryggt í stjórnarskrá.
Eigi að fjalla um opinbert tungumál í stjórnarskrá þarf staða íslenskunnar og táknmáls heyrnarlausra að vera sambærileg.
Ég vil styrkja aðskilnað framkvæmda- og löggjafarvalds, auka sjálfstæði dómstóla (t.a.m. með því að tryggja að skipan dómara sé ekki háð pólitískum duttlungum).
Ég vil endurskoða hlutverk forseta og leita leiða til að skýra reglur um þjóðaratkvæðagreiðslur og nota þær í auknum mæli.
Ég styð aðskilnað ríkis og kirkju.
Ég vil að sameiginlegar auðlindir séu nýttar í þágu þjóðar en með hag náttúru og mannkyns í huga og skoða möguleika á að setja ákvæði um sjálfbærni í stjórnarskrána.
Alþjóðamálin eru mér hugleikin og ég vil leita leiða til að auka samráð um meiriháttar ákvarðanir um utanríkismál til að koma í veg fyrir að ákvarðanir á borð við þá um að Ísland styddi við innrásina í Írak 2003 endurtaki sig. Ég myndi vilja að Ísland væri hlutlaust á friðartímum en tæki afstöðu gegn mannréttindabrotum og einræðisstjórnum.
Um mig:
Ég fæddist á Ólafsfirði á öðrum degi sumars árið 1971 og gekk í Barnaskóla Ólafsfjarðar, Lundarskóla á Akureyri og Álftamýrarskóla í Reykjavík áður en leiðin lá í Menntaskólann við Hamrahlíð. Að stúdentsprófi loknu kom ég við í Háskóla Íslands, en stoppaði stutt þar. Ég flutti til Bandaríkjanna og lauk BA gráðu í alþjóðasamskiptum frá Lewis & Clark College í Portland Oregon, og MA gráðu frá University of Southern California í Los Angeles, þar sem ég stundaði einnig doktorsnám. Samhliða námi vann ég í verslunum og eldhúsi, við ræstingar og garðyrkju, sem aðstoðarmaður fræðimanna og stúdenta með námshamlanir og/eða líkamlega skerðingu, þýddi kvikmyndir og margt, margt fleira. Ég gerði útvarpsþætti um alþjóðamál fyrir Rás 1 veturinn 2007-2008, og þá má hlusta á hér.
Ég vann í Bandaríkjunum samhliða námi þar til vorið 2003, þegar ég flutti til Íslands og hóf störf á Jafnréttisstofu síðla árs. Þar starfaði ég til haustsins 2006, þegar ég flutti til Reykjavíkur og tók við starfi forstöðumanns Alþjóðamálastofnunar HÍ. Samhliða störfum á Jafnréttisstofu og rekstri Alþjóðamálastofnunar var ég aðjúnkt við stjórnmálafræðideild HÍ og er nú í fullu starfi þar. Þar kenni ég námskeið um alþjóðastjórnmál og samningatækni, leiðbeini nemendum við ritun lokaritgerða og sinni rannsóknum. Ég beini sjónum mínum einkum að utanríkis- og öryggismálum og hef sérstakan áhuga á stöðu kvenna í alþjóðastjórnmálum. Hér má skoða útgefið efni eftir mig.
Ég gekk í Vinstrihreyfinguna – grænt framboð vorið 2005 og var kjörin í flokksráð það haust. Hef verið endurkjörin á tveimur landsfundum og er í flokksráði a.m.k. fram að næsta landsfundi. Sat á lista í framboði til bæjarstjórnar á Akureyri vorið 2006. Ég sit fyrir Femínistafélag Íslands, Kvenfélagasamband Íslands og Kvenréttindafélag Íslands í Jafnréttisráði. Ég er fulltrúi Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum í verkefnisstjórn um kynjaða hagstjórn. Ég er skipuð af utanríkisráðherra í undirhóp samninganefndar við ESB, hópurinn fjallar um utanríkisviðskipti, utanríkis- og öryggismál og þróunarsamvinnu. Ég er varamaður í stjórn LÍN, skipuð af menntamálaráðherra. Ég hef setið í stjórnum ýmissa félaga sem vinna að jafnrétti kynjanna, þ.m.t. stjórn Landsnefndar UNIFEM á Íslandi, í ráði Femínistafélags Íslands og í aðalstjórn Kvenréttindafélags Íslands.