19.11.10

auðlindir þjóðarinnar

Þjóðfundurinn á dögunum lagði áherslu á vernd og nýtingu náttúru Íslands. Þetta er mér hugleikið viðfangsefni, ekki bara náttúra Íslands heldur náttúra og umhverfi í hnattrænum skilningi. Náttúran er ekki okkar eign, hún er fengin okkur til vörslu og við þurfum að huga að velferð komandi kynslóða þegar ákvarðanir um nýtingu eru teknar. Ég vil að sameiginlegar auðlindir landsins verði nýttar í þágu þjóðar, en með hag náttúrunnar og mannkyns í huga. Þá á ég ekki við að hver bæjarlækur eða berjamói verði nýttur í þágu þjóðar, heldur að orkan, vatnið og fiskurinn sé þjóðarinnar, ekki einstaklinga. Með því að nýta auðlindir í þágu þjóðar á ég líka við að innviði samfélagsins megi ekki einkavæða, þannig að fáir græði en allir borgi. Allar auðlindir þarf að nýta á ábyrgan hátt þannig að við eyðum ekki stofnum eða andrúmslofti, og skerðum ekki lífsgæði annarra þjóða með okkar lifnaðarháttum.

Við lifum á breytingatímum og við verðum að stíga varlega til jarðar. Átök vegna umhverfismála verða sífellt meira áberandi í heiminum og fólk þarf að flýja heimili sín vegna breytinga, jafnvel hamfara, sem tengjast umhverfisbreytingum. Þess vegna er mikilvægt að hvert ríki og hver þjóð hugsi um sjálfbærni. Ég vil sjá ákvæði í stjórnarskrá um sjálfbærni og ég vil að við höfum orð Jónasar frá Hriflu í huga, en hann sagði að sumir fossar væru „of góðir til að vera saurgaðir með verksmiðjum“ (Unnur Birna Karlsdóttir, Skírnir 2005). Ég held að þessi orð eigi við um margt fleira en fossa. Við verðum að hugsa til lengri tíma og reyna að læra af sögunni, þótt okkur virðist oft ganga illa að gera það. Í vinnu við nýja stjórnarskrá gefst okkur tækifæri til að sýna að við metum náttúruna sem auðlind í sjálfri sér, ekki bara fyrir þau not sem við höfum af henni.

===

Að öðru: Ég verð á Akureyri í dag, held erindi á ráðstefnu um jafnrétti og friðargæslu seinnipartinn (dagskrána má finna hér). Að henni lokinni ætla ég að fara á Bláu könnuna og býð kjósendum sem vilja hitta mig að kíkja á mig þar milli 16:30 og 18:00.
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment