Á næstu dögum ætla ég að setja inn nokkrar færslur um þá efnisflokka og gildi sem komu út úr þjóðfundinum. Vona að það aðstoði lesendur við að kynna sér áherslur mínar og afstöðu, auk þess sem ég reyni að skýra hvernig þær mótast. Mér þykir ólíklegt að mínar áherslur í heild skili sér, en lesendur geta þá séð hvernig ég mun nálgast málin.
Þjóðfundur taldi land og þjóð mikilvægan málaflokk í nýja stjórnarskrá. Í þessum efnisflokki er fjallað um fullveldi og sjálfstæði Íslands, tungu, menningu og auðlindir. Með tungunni flytjum við menningararf okkar milli kynslóða og með því að vernda tunguna stuðlum við að framgangi íslenskrar menningar. Ég er þó ekki viss um að ég telji þörf á því að skilgreina íslensku sem þjóðtungu í stjórnarskrá, þótt ég sé ekki á móti því heldur. Það er þó tvennt sem ég myndi vilja tryggja ef íslenskan fær sérstaka stöðu í stjórnarskrá. Í fyrsta lagi má hún að mínu mati ekki vera hafin yfir táknmál heyrnarlausra. Táknmál er móðurmál nokkurs fjölda Íslendinga og þeir eiga að njóta sömu réttinda og við hin, sem heyrandi erum. Í annan stað tel ég nauðsynlegt að tryggja að upplýsingum sé miðlað á helstu tungumálum innflytjenda. Innflytjendur verða líka að fá tækifæri til að læra íslensku. Verði henni veitt sérstaða þarf því að tryggja framboð á íslenskukennslu.
Í þessum niðurstöðum þjóðfundar er einnig fjallað um að stjórnarskrána skuli kynna í skólum. Ég vil ekki einungis kynna stjórnarskrána heldur tryggja að virk og lýðræðisleg borgaraleg menntun verði aðgengileg fyrir alla borgara landsins. Þetta getur stjórnarskráin tryggt, t.d. með stofnun miðstöðvar fyrir borgaralega menntun. Slík stofnun gæti ég ímyndað mér að myndi heyra undir Umboðsmann Alþingis, til að tryggja að pólitísk sjónarmið hverju sinni verði ekki ráðandi heldur þjálfun í lýðræðislegri hugsun og umræðu.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
0 comments:
Post a Comment