Eins og þú vonandi veist, þá er ég í framboði til stjórnlagaþings. Ég hef ekki keypt auglýsingar og ætla mér ekki að gera það, heldur treysta kjósendum til að leggja mat á framboð mitt út frá markmiðum mínum og þeim sjónarmiðum sem ég stend fyrir. Þess vegna hef ég reynt að virkja kjósendur sem þekkja mig og treysta mér, og beðið þá að aðstoða mig við að koma sjálfri mér á framfæri, dreifa kynningarefni í kringum sig auk þess að mæla með mér við vini sína og kunningja.
Hér eru slóðir inn á kynningarsíður. Undirsíða þessa bloggs, http://siljabara.eyjan.is/p/frambo-til-stjornlagaings.html skýrir af hverju ég bauð mig fram til stjórnlagaþings. Á http://uni.hi.is/sbo er hægt að finna fræðilegt efni sem ég hef skrifað og tengla á útvarpsþætti mína um alþjóðamál, fjölmiðlaumfjallanir o.fl.og á http://www.facebook.com/pages/Silju-Baru-a-stjornlagabing/168566713159547 er stuðningsmannasíða á Facebook. Þar kynni ég framboðsfundi og annað efni sem ég er að senda frá mér.
Ég minni á að það skiptir miklu máli hvernig þú raðar á kjörseðilinn - og ég vona að eftir að kynna þér hugmyndir mínar og nálgun að stjórnlagaþinginu íhugirðu að setja mig í eitt efstu sætanna. Ef ég fæ fleiri atkvæði en þarf til að ná kjöri, þá nýtist hluti atkvæðis þíns þeim sem næstir koma. Nái ég ekki kjöri fer atkvæðið óskipt til þess sem næstur er á seðlinum.
Að lokum langar mig að hvetja þig til að kjósa. Góð kjörsókn mun auka trúverðugleika stjórnlagaþingsins. Sá trúverðugleiki verður enn meiri ef inn á þingið velst fjölbreyttur hópur fólks, svo mig langar að hvetja þig til að hugsa um konur og karla, aldur, búsetu og fjölbreytileika af öllu tagi þegar þú kýst.
Takk fyrir að taka þér tíma til að lesa þetta - og mætum öll á kjörstað þann 27. nóvember.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
0 comments:
Post a Comment