1.12.10

þakkir

Á laugardaginn hélt ég upp á þakkargjörðina, bandarískan sið sem ég flutti með mér heim fyrir nokkrum árum. Ég þakkaði fyrir ýmislegt, en ég verð að viðurkenna að mér datt ekki í hug að nokkrum dögum síðar myndi ég þakka kjósendum - hluta þjóðarinnar - fyrir að treysta mér til þess að taka þátt í endurmótun stjórnarskrár lýðveldisins. En sú er reyndin og eftir að hafa verið á spani að tala við fólk út um allan bæ, hlaupa á milli funda og fjölmiðla, þá langar mig að setja hér inn þakkir til þeirra sem studdu mig, og þeirra sem tóku þátt í þessari kosningu. Ég fann fyrir miklum velvilja og stuðningi hjá fólki sem ég talaði við í þessu ferli. Foreldrum mínum og vinum, sem studdu mig óspart, þakka ég alveg sérstaklega.

Ég er ekki aðdáandi persónukjörs og mér sýnist niðurstaðan af þessum kosningum styðja við það sem ég óttaðist, að þekktir einstaklingar ættu auðveldara með að komast að. Vegna þess að starf mitt og þátttaka mín í félagsstörfum hafa falið í sér nokkra virkni í fjölmiðlum tók ég þá ákvörðun að auglýsa ekkert. Ég notaði Facebook og tölvupóst, en hringdi örfá símtöl.

Vinur minn hannaði fyrir mig lítinn einblöðung sem ég sendi stuðningsfólki í tölvupósti og sumt þess prentaði hann út heima hjá sér og dreifði. Ég eyddi því ekki krónu í framboðið, fyrir utan símreikning og bensínkostnaðinn sem hlaust af því að keyra á milli til að safna undirskriftum.

Ég geri mér grein fyrir því að fyrirliggjandi er vandasamt verk og ekki eru allir sammála um það að hefjast eigi handa við það yfir höfuð. Sú ákvörðun liggur þó fyrir og ég heiti því að leggja mitt af mörkum til þess að niðurstaðan verði í samræmi við skilaboð þjóðfundarins og í sátt við þjóðina.
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment