12.11.10

mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar

Í skilaboðum frá þjóðfundi var mikil áhersla lögð á mannréttindi, og talað um að allir skulu njóta mannréttinda í samræmi við alþjóðlega mannréttindasáttmála. Samkvæmt Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna eru mannréttindi óháð stétt, stöðu, fjölskyldu, trú og menningu. Þau eiga að fylgja okkur, hverju og einu, frá vöggu til grafar og litarháttur, kynferði, þjóðerni eða stjórnmálaskoðun skyldi engu breyta þar um. Tilvist manneskju veitir henni einfaldlega rétt til að njóta mannréttinda til jafns á við aðra, eða eins og segir í 3. grein: „Allir menn eiga rétt til lífs, frelsis og mannhelgi.“ Í inngangsorðum sáttmálans er þetta sagt vera undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum. Þar er jafnframt kveðið á um að mannréttindi skuli vernda með lögum. Að öðrum kosti hlýtur fólk að grípa til þess örþrifaráðs að rísa upp gegn kúgun og ofbeldi.

Mannréttindaákvæðið er að mínu mati það mikilvægasta í stjórnarskránni og á heima fremst í henni. Mannleg reisn skiptir lykilmáli og ég tel nauðsynlegt að taka sérstaklega til samfélagslegra minnihlutahópa og tryggja að þeir njóti réttinda sem við í „meirihlutanum“ teljum sjálfsögð. Þetta tel ég að eigi við um uppruna, kynhneigð og kynvitund, fötlun og fleira og vil að þessir þættir verði settir inn í núverandi 65. gr. sem fjallar um ólíka hópa, frekar en að það vísi til þeirra „að öðru leyti.“ Sú grein ætti síðan að vera í fyrsta kafla stjórnarskrárinnar. Rétt er að benda á að jafn réttur kynjanna kom fyrst inn í þetta ákvæði fyrir 15 árum.

Mannréttindahugtakið þróast mjög í takt við alþjóðasáttmála. Ég vil líta til norskrar fyrirmyndar, þar sem sérstakur mannréttindabálkur er til utan stjórnarskrár, en hefur stjórnarskrárgildi. Í hann er hægt að innleiða alþjóðasáttmála á sviði mannréttinda, sem eru þá rétthærri en landslög stangist þau á. Í Noregi hefur t.d. Barnasáttmálinn verið innleiddur í þennan mannréttindabálk. Með þessu móti þarf ekki að breyta stjórnarskránni í hvert sinn sem við viljum uppfæra skilning okkar á mannréttindum og við tryggjum um leið að mannréttindaákvæði verði æðri landslögum.
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment