24.11.10

friður og alþjóðasamvinna

Mér, eins og mörgum öðrum, var brugðið þegar Ísland lýsti yfir stuðningi við innrás Bandaríkjanna í Írak vorið 2003. Ég hafði þá búið í tíu ár erlendis, og í mér sat alltaf fast að Ísland myndi aldrei fara með stríði á hendur öðrum ríkjum og ég taldi sjálfsagt að í þessu fælist að styðja ekki við hernað annarra ríkja.

Í stjórnarskránni er lítið fjallað um utanríkismál. Í 21. gr. er sagt að forsetinn geri samninga við önnur ríki, og í reynd hafa utanríkismál alltaf verið á hendi framkvæmdavaldsins. Utanríkismálanefnd átti þó upphaflega að fjalla um öll utanríkismál, þótt það hafi aldrei orðið þannig í reynd. Árið 2003 virðist því hafa verið þannig komið að ekki einu sinni meiriháttar ákvarðanir um utanríkismál voru sendar til utanríkismálanefndar. Björg Thorarensen hefur skrifað grein um uppruna utanríkismálanefndar, sem er áhugaverð lesning og hana má nálgast hér fyrir þau sem eru áhugasöm um ítarlegri bakgrunn.

Það þarf að skýra betur markmið Íslands í utanríkismálum. Þessi markmið ættu að vera í samræmi við þá sjálfsmynd sem kemur fram í niðurstöðum þjóðfundar. Sú sjálfsmynd samræmist í mínum huga ekki því að lýsa yfir stuðningi við hernað, heldur mun frekar að við leggjum okkar af mörkum í stuðningi við mannréttindi og uppbyggingarstarf. Þannig ætti að senda sérfræðinga í björgunarverkefni þegar við höfum mikið fram að færa eins og þegar rústabjörgunarsveitin fór til Haítí í upphafi árs. Eins eigum við fjöldann allan af sérfræðingum sem geta komið að mannúðarverkefnum og unnið þannig að þeim markmiðum sem við viljum stuðla að.

Ríkið er ungt og sjálfstæðisbaráttan er lifandi í minni þjóðarinnar. Þjóðfundurinn taldi nauðsynlegt að Ísland væri sjálfstætt og fullvalda ríki sem legði áherslu á samvinnu við önnur ríki. Að mínu mati þarf að kveða á um það í stjórnarskrá að Ísland sé herlaust land. Framkvæmd utanríkismála þarf vissulega að vera á höndum framkvæmdavaldsins, en ég tel þó nauðsynlegt að tryggja það að með meiriháttar ákvarðanir verði farið til utanríkismálanefndar. Skilgreind aðkoma utanríkismálanefndar að tilteknum málum þarf að koma fram í stjórnarskrá - það er eðlileg leið til að tempra vald ólíkra greina ríkisvaldsins.

Stuðningur Íslands við innrásina í Írak vakti mig, eins og marga fleiri til umhugsunar. Ég er sannfærð um það að margir á þingi hefðu viljað breyta umgjörð þessara mála í kjölfarið, en fyrirkomulagið á stjórnarskrárbreytingum tefur stjórnmálaflokkana - þeir eiga of mikilla hagsmuna að gæta. Það er kominn tími til að við ræðum hugmyndirnar sem voru í sambandslögunum 1918, ætlum við að vera hlutlaus, herlaus, eða hvað? Sjálf vil ég leggja áherslu á að við séum friðelskandi þjóð í herlausu landi, sem tekur afstöðu með lítilmagnanum og gegn mannréttindabrotum. Það er verkefni sem þarf að fela bæði framkvæmda- og löggjafarvaldi til að sinna.
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment