Áfram heldur Icesave dellan alls staðar. Þegar samningarnir voru kynntir fór allt í háaloft yfir því að við værum að afsala okkur friðhelgi ríkisins (sovereign immunity). Ég hafði ekki einu sinni hugsað út í það þegar ég bloggaði hérna í síðustu viku um hegðun Íslands á alþjóðavettvangi, að þetta er auðvitað það sama og við gerðum þá. Í þessu afsali felst einungis afsal á réttinum til að hafna því að fara fyrir dóm. Við erum sumsé að segja að ef við brjótum gegn samningnum, þá megi fara með okkur fyrir dómstóla. Rétt eins og við gerðum þegar við sömdum í þorskastríðinu í kringum 1960; loforð sem við brutum 10 árum seinna. Við erum þá a.m.k. samkvæm sjálfum okkur ef við byrjum á því að brjóta þennan samning. Nú eru margir að segja að við eigum að undirbúa lögsókn gegn kröfuhöfunum í Icesave, Bretlandi og Hollandi. Þurfa þessi ríki þá ekki að samþykkja sama afsal friðhelgi? Merkilegt hvernig reglurnar eiga aldrei að eiga við þegar þær eru ekki okkur í vil.
En þetta var í síðustu viku. Núna eigum við að krefjast þess af Alþingi eða forsetanum að hafna samningnum, sem samninganefnd skipuð af ríkisstjórninni - sem hafði til þess umboð frá Alþingi - sendi til starfans. Vissulega má færa fyrir því rök að það hefði verið hægt að hafa nefndina sterkari. Niðurstaðan hefði mögulega getað verið betri. Þjóðin hefur enn ekki gögnin til að meta það. Ísland er líka og verður alltaf minna en flest nágrannaríkin. Eigum við að fara fram á það að spila úrslitaleikinn á Ólympíuleikunum aftur, af því töpuðum honum af því við notuðum ekki erlenda atvinnumenn? Við vinnum með þær bjargir sem við höfum.