1.7.09

innistæðulausar yfirlýsingar

Í núverandi aðstæðum er ábyrgðarhluti að fólk setji ekki fram órökstuddar yfirlýsingar um stórar og afdrifaríkar ákvarðanir. Slíkar yfirlýsingar var að finna í aðsendri grein í Morgunblaðinu í gær. Þær voru síðan teknar upp gagnrýnislaust af fjölmiðlum sem hafa hamrað á þeim í kjölfarið án þess að spyrja hverjar staðreyndirnar séu. Í greininni er fjallað um Icesave samninginn og Alþingi hvatt til að hafna honum, þar sem það á að blasa "við að afdrifarík mistök voru gerð af íslensku samninganefndinni. Bretar og Hollendingar hafa án efa teflt fram mjög reyndum samningamönnum. Íslenska nefndin var hins vegar samsett af stjórnmálamönnum og embættismönnum." Engin rök eru færð fyrir þessum skoðunum.

Morgunblaðið slær þessu upp í millifyrirsögn og ritstjórnin velur þannig að gera þessu sjónarmiði hátt undir höfði. Enginn þar eða á öðrum fjölmiðli virðist (að því er ég hef séð) hafa reynt að komast að því hvort þetta sé rétt. Tvennt hefði verið gott að fjölmiðlar könnuðu í þessu samhengi, í staðinn fyrir að endurtaka bara setninguna. Það er a) hvaða mistök telur greinarhöfundur að hafi verið gerð, og b) á þessi fullyrðing um samsetningu bresku og hollensku samninganefndanna sér stoð í raunveruleikanum

Svar við b-lið er einfalt að fá, og ég fékk það með nokkrum tölvupóstum og símtölum. Samninganefndir Breta og Hollendinga voru leiddar af og að mestu leyti skipaðar embættismönnum úr fjármálaráðuneytum viðkomandi ríkja. Sá hópur virðist því jafnvel hafa verið enn einsleitari en sá íslenski, sem var a.m.k. samsettur af fólki úr ólíkum áttum, með aðgang að ólíkum upplýsingum og ráðamönnum á mismunandi sviðum. Einnig er valið hér að setja fyrrverandi stjórnmálamenn yfir bæði Icesave og nefndina sem semur um lán frá grannríkjum, vegna þess að verkefnið var talið vera pólitískt. Þetta er í samræmi við álit meirihluta utanríkismálanefndar meðan Samfylking og Sjálfstæðisflokkur voru við völd, sbr. bls. 14 hér. Pólitíkusarnir fyrrverandi hafa reynslu af samningum og út frá samningatækni er þetta skynsamleg ákvörðun, því umboð slíkra samningamanna er trúverðugra en embættismanna; þeir hafa aðgang að valdinu og tala í nafni þess. Hins vegar tel ég að bakgrunnur samningamanna hefði mátt vera enn fjölbreyttari eða a.m.k. stærri ráðgjafahópur í kringum nefndina.

Fyrri fullyrðingin, um að augljós mistök hafi verið gerð sé ég ekki í fljótu bragði að standist og vildi gjarnan fá útskýringu á því. Hver voru þessi mistök? Það er hlutverk fjölmiðla að ganga á eftir útskýringum á svona fullyrðingum. Sjálf sé ég fjölda mistaka sem leiddi til þessara aðstæðna. Þar á meðal er það hvernig staðið var að einkavæðingu bankanna, hvernig FME var haldið of litlu og máttlausu til að geta sinnt sínu hlutverki, hvernig ríkisstjórnir þeirra flokka sem nú eru í stjórnarandstöðu (og Samfylkingin í nokkurn tíma) vanræktu að breyta reglum sem hindruðu að íslensku bankarnir opnuðu útibú erlendis.

Að það séu mistök að semja um niðurstöðu, sem gefur okkur gálgafrest á þessari skuld meðan aðrar stærri falla á okkur fæ ég ekki séð. Það heitir að þekkja mörk sín, að vita hversu margar orrustur maður getur háð í einu.

Er að hlaupa út til að fara í viðtal í Bítinu á Bylgjunni. Reikna með að þetta beri á góma þar.
Setja á Facebook