27.6.09

áfram um hegðun Íslands á alþjóðavettvangi

Ég hef fengið ýmis viðbrögð við síðustu færslu, bæði jákvæð og neikvæð. Ætli það sé ekki rétt að taka fram að ég er ekkert hrifin af Icesave samningnum. Þetta er gífurlegur kostnaður og auðvitað getum við ekkert spáð fyrir um það hvort við getum borgað þegar kemur að skuldadögum. En ég er sannfærð um að við verðum að borga.

Það er grundvallarregla í þjóðarétti er að ríki verða að samþykkja að fara fyrir dómstóla. Þetta er nokkuð sem Ísland hefur vanvirt. Árið 1961 var samið um aðgang Breta að fiskimiðum okkar og þá samþykkti íslenska ríkið að fara fyrir Alþjóðadómstólinn ef til frekari ágreinings kæmi. Þessu höfnuðum við áratug seinna, ný ríkisstjórn hafði tekið við og sagði samninginn vera landráðasamning sem ekki væri hægt að standa við. Þetta gleymist ekki og hefur örugglega eitthvað með það að gera að þau ríki sem við deilum við núna hafna dómstólaleiðinni alfarið.

Hér er klausan úr samningnum:

Svo er það annað, með samningana. Í samningatækni eru nokkrar grundvallarreglur. Ein er að samningar geti ekki farið fram nema báðir/allir aðilar vilji það. Að fara í samninga, skrifa undir (þó svo það sé með fyrirvara), hafna samningi og heimta svo að semja upp á nýtt er ekki sérstaklega vænlegt til árangurs. Það væri samt auðvitað í fullu samræmi við fyrri hegðun Íslendinga á alþjóðavettvangi, en hvaða ástæðu ættu hin ríkin að hafa til að víkja frá því samkomulagi sem komið er? Þá er manni kennt að vinna út frá hugtaki sem heitir BATNA (Best Alternative to a Negotiated Agreement). Þetta hefur verið þýtt sem "besti kostur" á íslensku. Ef besti kosturinn utan samninga er betri en sú niðurstaða sem fæst úr samningum, þá á maður ekki að semja. Besti kosturinn er ekkert alltaf góður, svo fjarstæðukennt sem setningin lítur út. Hann þarf bara að vera betri (skárri) en aðrir sem standa til boða.

Getur einhver sýnt fram á betri kost en þann (slæma) sem samningarnir eru? Mikið yrði ég kát ef svo væri.
Setja á Facebook