22.11.10

aðkoma kvenna að stjórnarskránni

Stjórnarskrár eru ekki samdar á hverjum degi. Margar eru gamlar og voru samdar á þeim tíma sem konur voru ekki taldar til borgara og réttindin sem í þeim birtast eru byggð á sjónarmiðum karlanna sem þá sátu á þingi. Íslenska stjórnarskráin var síðast uppfærð árið 1995 og þá voru konur í hópi þingmanna aðeins 25%. Þó ekki væri nema út frá því sjónarmiði að konur og karlar eigi að fá að hafa jöfn áhrif á mótun grundvallarreglna í samfélaginu, þá er að mínu mati kominn tími til að endurnýja stjórnarskrána. Nú eru konur rétt um 40% þingmanna, hæsta hlutfall sem hefur náðst og ég vona að ný stjórnarskrá verði samin og samþykkt af konum og körlum (svona nokkurn veginn) til jafns.

Það er ekki nóg að muna eftir konunum, eins og Abigail Adams minnti manninn sinn á árið 1776 þegar Bandaríkin voru að verða til. Konur og karlar þurfa að taka þátt. Konur og karlar verða að öðlast jafnan rétt og sá réttur verður að skila þeim jafnri stöðu. Þegar síðast stóð til að endurskoða stjórnarskrána, árið 2006, lagði kvennahreyfingin til nokkrar breytingar. Þær má lesa hér, ásamt greinargerð og í stuttu máli tek ég undir það sem þar stendur. Tryggja þarf öryggi kvenna og karla með friðhelgi einkalífs og vernd gegn ofbeldi á opinberum vettvangi og í einkalífi. Kosningalög geri grein fyrir því hvernig eigi að tryggja jafnt hlutfall kvenna og karla á þingi. Skylda verði að setja í lög aðgerðir til að tryggja jafnstöðu kynjanna - svokölluð athafnaskylda stjórnvalda.

Jafnrétti kynjanna er í mínum huga spurning um mannréttindi. Okkur gefst nú í fyrsta skipti tækifæri til þess að móta stjórnarskrá sem endurspeglar sjónarmið beggja kynja - en til þess þarf að kjósa bæði konur og karla á stjórnlagaþing.
Setja á Facebook

1 comments:

Anonymous said...

Flottur pistill, af öllum þeim frambjóðendum sem eru með svipaðar áherslur og mér finnst góðar, kýs ég frekar konur en karla.
Reyndar barðist amma mín lengi fyrir réttindum heimavinnandi fólks, sem eins og við vitum er launalaust og nýtur því oft minni réttinda og samfélagsöryggis en sá sem er útivinnandi, t.d. við skilnað. Þrátt fyrir að vinna við heimilishald og uppeldi barna sé þjóðfélagslega hagnýtt.
Ég mundi vilja sjá samfélag þar sem fjölskyldur hafa álíka réttindi og fyrirtæki og að heimavinnandi konur og karlar afli sér réttinda til jafns við útivinnandi. Þannig væri hagkvæmi uppeldishlutverks foreldra viðurkennt, enda flestir foreldrar betur til þess fallnir að sjá um börnin sín en stofnunarfólk úti í bæ, amk fram að skólaaldri.

Gangi þér vel,
Albert Sigurðsson

Post a Comment