21.8.10

takk, en ég vil meira

Agli Helgasyni þykir ég eitthvað vanþakklát að falla ekki í stafi yfir því að áhrifamiklir fjölmiðlamenn bendi á hlut sem mér þykir augljós. Í athugasemdum virðist fólk svo meina að ég sé svekkt yfir að á mig hafi ekki verið hlustað. Það er rétt að ég sagði í síðustu færslu að þarna væri ekkert nýtt, en það er ekki vegna þess að ég hafi uppgötvað þessa hluti þótt ég hafi bergmálað þá í minni kennslu og aktívisma. Þvert á móti, þá hef ég lesið rannsóknir sem sýna fram á sambærilega hluti og Kristoff og WuDunn fjalla um. Þessar rannsóknir hafa verið lagðar fram á alþjóðavettvangi og hafa verið í umræðunni á ýmsum vettvangi um árabil. Nærtækast er að minnast skýrslu Elisabeth Rehn og Ellenar Johnson Sirleaf frá því snemma á þessari öld. En þessar rannsóknir reyna ekki að leysa vandann með aðferðum jákvæðrar sálfræði heldur með því að nálgast hann kerfislægt. Ég hef oft vísað í pistla Kristoffs á New York Times, einmitt til að draga fram þessar aðstæður. Munurinn er kannski núna að bókin getur haft gífurleg áhrif á það hvernig tekið verður á aðstæðum kvenna um heim allan og ég tel rétt að taka undir með gagnrýnisröddum til að vekja athygli á því að þau eru kannski ekki með allar réttu lausnirnar.

Eitthvað hefur Egill líka misskilið mig, blessaður, því ég er alls ekki óánægð með framtakið (fyrir utan að það ætti ekki að skipta neinu máli hvort ég er það eða ekki). Ég hefði bara viljað sjá stærra samhengi í framsetningu þeirra. Egill segir að Kristoff og WuDunn hafi rannsakað aðstæður kvenna víða um heim. Þar stendur einmitt hnífurinn í kúnni, þau hafa ekki gert það. Þau hafa skrifað fréttir um konur. Þau segja okkur áhrifaríkar, oft átakanlegar, sögur af einstaka konum. Þau láta að því liggja - rétt eins og Time Magazine gerir með forsíðumynd sinni af Aishu - að það sem þau segja frá sé viðmiðið. Þau alhæfa út frá einstökum dæmum.

Vissulega er fjöldi dæma til um þær ömurlegu aðstæður sem konur búa við, víða um heim. Það að Kristoff hafi keypt tvær stúlkur úr ánauð og vaknað þannig upp við það hversu lítils virði líf ánauðugrar konu er sannar þó ekkert. Og að kaupa tvær stúlkur úr ánauð, án þess að geta breytt kerfinu sem þær búa við er ekki langtímalausn. Það þarf að breyta formgerð samfélagsins sem gerir það að verkum að þær séu seldar.

Það er einkum tvennt sem truflaði mig við framsetningu Kristoffs og WuDunns. Það er annars vegar að lausnirnar séu einstaklingsbundnar, en ekki kerfislægar. Ég tel að það þurfi miklu stærra átak til en að fá fólk til að gefa styrki til menntunar kvenna. Það þarf að breyta afstöðunni. Hitt er að þau dylja það - meðvitað eða ómeðvitað - að sambærilegur vandi steðji að konum í iðnríkjum - og að iðnríkin eru hluti af vandanum með kynlífstúrisma og kaupum á fórnarlömbum mansals (það er bjálkinn í augum okkar). Vandinn sem Kristoff og WuDunn kynna er allur kvenna í þróunarlöndum. Þær búa jú við mun verri lífskjör en við á Vesturlöndum, en misrétti alls staðar er af sama meiði. Við eigum ekki að líta fram hjá heimilisofbeldi, mansali og vændi í iðnríkjunum og gleðjast við að styrkja fátæka stúlku til náms. Við eigum að styrkja stúlkur - og drengi - til náms og berjast gegn misrétti í okkar nánasta umhverfi.

Lausnir Kristoffs og WuDunns finnst mér jafnast á við það að segja að ég eigi að nota taupoka frekar en plastpoka þegar ég kaupi inn. Það muni draga úr hlýnun andrúmslofts. Vissulega hjálpar það, en lausnin er á forsendum valdsins og dregur ekki undirstöðurnar í efa. Femínismi hefur kennt mér að draga alltaf forsendur valdsins í efa. Þær kunna að vera réttar, en ég áskil mér rétt til að efast.

Ég segi eins og Oliver Twist, takk, en ég vil meira.
Setja á Facebook

1 comments:

Hjörtur Hjartarson said...

Fínar samræður.

Post a Comment