Í gær gekk myndband af Sheryl WuDunn, blaðamanni og öðrum höfundi bókarinnar Half the Sky, um meðal vina minna á Facebook. Sheryl og maður hennar, Nicholas Kristof, skrifuðu bókina til að bregðast við þeim faraldri sem þau líta á misrétti gegn konum vera í heiminum í dag. Góður og gegn málstaður og undir hann tek ég heils hugar. En ég er hugsi yfir skilaboðunum og nálguninni. Þau leggja áherslu á það hve illa er farið með konur í þróunarlöndum. Það er líka alveg rétt. Kristof hefur líka verið duglegur að segja frá þeim ótrúlegu kjörum sem konur búa við víða um heim og pistlarnir hans á NY Times eru vel þess virði að lesa. En þau líta framhjá því að það er líka farið illa með konur á Vesturlöndum. Lausnin er einstaklingsbundin í þeirra heimi. Ríka fólkið á Vesturlöndum á að gefa - kaupa - jafnrétti fyrir konur í þróunarlöndum. Og við eigum að gera það til að láta okkur líða betur. Þau taka viðskiptalífsnálgun að lausninni. Það er ekki hagkvæmt að láta kvenauð ríkja liggja í órækt. Lausnin færist þannig úr réttlæti og yfir í hagkvæmni. Vandamálið verður einstaklingsins, frekar en samfélagsins eða formgerðarinnar. Konur halda uppi hálfum himninum, segja Kristof og WuDunn. Bókin selst eins og heitar lummur, sjónvarpsþættir eru í vinnslu og fólk í Bandaríkjunum er farið að gefa. Enginn virðist muna að það var Maó sem sagði að konur héldu uppi hálfum himninum - ekki að það skipti máli - en það er áhugavert að tilvitnun í gamlan kommúnista sé orðin leiðarljós kapítalískra lausna á samfélagslegum vanda.
Á svipuðum tíma og bókin er að komast í hámæli birtist mynd af ungri afganskri konu utan á Time Magazine. Andlitið er afskræmt eftir ofbeldi af hálfu eiginmanns hennar. Spurningu varpað fram, án spurningarmerkis, á forsíðunni: Hvað gerist ef við förum frá Afganistan. Undirmeðvitundin svarar: Það verður farið svona með fleiri konur. Ofbeldi gegn konum er notað sem réttlæting á hernaði - einstaklingsbundið ofbeldi notað sem réttlæting á kerfisbundnu ofbeldi. Það er eitthvað sem slær mig við þennan málfutning. Hér er aftur staða kvenna í þróunarlandi sett fram til að réttlæta aðgerðir. Á okkur að líða betur með hernaðinn vegna þess að þá er möguleiki að það verði farið svona með færri konur? Er það okkar að styðja hernað til þess að bjarga þeim, eins og við eigum að bera ábyrgð á því sem einstaklingar að konur séu umskornar, þeim nauðgað í stríðum, og þær sveltar, þeim synjað um skólavist? Er það ekki kerfislægur vandi sem krefst kerfisbundinna lausna? Ég skil ekki hvernig hernaður á að leysa þennan vanda.
Það er ekkert nýtt í erindi WuDunn, þó það sé skemmtilegt og vel flutt. Þarna eru staðreyndir sem ég hef sjálf talað um í fyrirlestrum og einkasamtölum svo árum skiptir. Það, að þetta séu sláandi upplýsingar fyrir svo marga, segir mér það eitt að fólk hafi ekki áhuga á breytingum. Eða að það sé auðveldara að sjá flísina í augum nágrannans en bjálkann í sínu eigin. Fyrir þau sem hafa áhuga á að kynna sér hina hliðina á hálfa himninum mæli ég með grein Germaine Greer um bókina. Hana má nálgast hér. Og Kavita Ramdas skrifar góða grein um það hér að réttlæta ekki ofbeldi með ofbeldi.
Erindi WuDunn má svo nálgast á TED, hér:
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
1 comments:
Þú tekur ekki sérstaklega undir þá 'einstaklingsbundnu' nálgun að styrkja stúlkur og konur til náms. Þó eru ýmsar rannsóknir sem sýna að þess háttar nálgun getur haft töluverð áhrif á 'kerfið': aukin menntun og efnahagslegt sjálfstæði kvenna helst í hendur við almennt bætta stöðu kvenna.
En þú gefur heldur ekki mikið fyrir þá 'kerfisbundnu' nálgun að taka yfir ríkisvaldið með vopnum. (Það geri ég ekki heldur.)
En hvernig eiga vesturlandabúar að styðja við kerfisbreytingar í Kambódíu ef einstaklingsbundnar lausnir eru út úr myndinni og stríðsrekstur líka?
Eða megum við ekki skipta okkur af gríðarlegu óréttlææti í öðrum löndum nema að útrýma fyrst öllu óréttlæti heima fyrir?
Hvað finnst þér að við/ég/þú eigum að gera í dag?
Post a Comment