Talskona Femínistafélags Íslands, Halla Gunnarsdóttir, og lögfræðingurinn Brynjar Níelsson hafa verið í ritdeilu upp á síðkastið. Brynjari hefur verið uppsigað við lög sem gera kaup á vændi refsiverð frá því þau komu fyrst til tals og virðist enn vera baráttumaður fyrir því að leyfa skuli verslun með líkama fólks. Halla hefur staðið vaktina fyrir Femínistafélagið (ath. hún er talskona félagsins, ekki femínista eins og Brynjar vill kalla hana) sem hefur stutt þessa lagabreytingu. Eitt af þeim verkefnum sem hún hefur tekist á hendur er að reyna að tryggja að lögin skili tilætluðum árangri, t.d. með því að kaupendur njóti ekki nafnleyndar.
Eitt í málflutningi Brynjars finnst mér athyglisvert. Hann segir, og ég vona að ég sé ekki að slíta úr samhengi: "Ég verð að viðurkenna að sennilega skortir mig bæði vit og skynsemi, því það er mér fullkomlega óskiljanlegt hvernig það getur flokkast undir kynbundið ofbeldi (hvað sem það nú annars er), þegar tveir fullráða einstaklingar ákveða að stunda kynlíf gegn gjaldi."
Nú er það svo að þriðji aðili hefur verið dæmdur fyrir glæp, þ.e. að hagnast af milligöngu um vændið. Sami aðili var ákærður fyrir mansal í þessu máli en ekki var sakfellt fyrir þann lið þar sem sönnunargögn þóttu ekki standast eindregna neitun á brotinu. En þar sem ljóst er að þriðji aðili hafði viðurværi sitt af vændinu finnst mér rétt að spyrja hvaða rétt og hvaða samningsstöðu höfðu vændiskonurnar til að ganga til að semja um gjald? Brynjar segist ekki hafa fundið upp skilgreininguna á þeim sem brotaþolum, en hún liggur einmitt fyrir. Telur hann þær virkilega vera að semja á jafnréttisgrundvelli?
Annars bendi ég á og fagna því að félagsmálaráðherra hafi skipað starfshóp um nýja aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi. Kannski lögfræðingurinn lesi skýrsluna þegar hún kemur út.
13.7.10
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
0 comments:
Post a Comment