6.7.10

HM, ESB og alþjóðastjórnmál

Frá því ég flutti til Bandaríkjanna 1992 hefur mér leiðst fótbolti. Ég spilaði sjálf sem krakki og átti mín uppáhaldslið í ensku og svona, en þegar kona býr í bæ þar sem hægt er að velja á milli LA Lakers og LA Galaxy, þá er ekki erfitt að velja.

Um daginn sat ég á kaffihúsi í Frakklandi með vinum mínum. Fótbolti í gangi og tvö sæti laus sem snéru að skjánum. Ég kippti upp bók, settist með bakið í skjáinn og leyfði þeim að horfa. Man ekki einu sinni hvaða lið voru að spila. En ég setti fram tilgátu þá. Slakt gengi Evrópuliða á mótinu (á þeim tímapunkti) endurspeglar valdatilfærslu sem á sér stað í alþjóðakerfinu. Við höfum nefnilega búið við e-s konar valdatóm síðustu árin og það hefur vantað valdamiðju sem okkur alþjóðastjórnmálafræðingum finnst alltaf að þurfi að vera til staðar. Sumsé: Völdin eru að færast til og gömlu evrópsku stórveldin ráða ekkert við breytingarnar. Vinkona mín, mikill ESB-sinni, benti á að einmitt þess vegna þyrftu Evrópulöndin að standa saman.

Ég játa nú að viðbót hennar við tilgátuna er sennilega rétt. Þrjú ESB lið standa eftir í HM. Holland keppir við Spán eða Þýskaland um titilinn. Margir segja líklegt að það verði Þýskaland. Tvö upprunaleg aðildarríki Evrópubandalaganna og allt eru þetta ríki sem setja Evrópusamstöðu ofarlega á dagskrá í sinni utanríkispólitík. Annað en Bretland, t.d., sem er alltaf hálfhikandi við að vera fullur meðlimur.

Vinkona mín myndi auðvitað vilja túlka þetta þannig að Ísland ætti að ganga í ESB. En ég efast um að karlalandsliðið okkar myndi skána eitthvað við það.
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment