Hér er grein sem ég skrifaði í DV sl. haust um málið. Ég birti hana áður á blogginu hér.
=======================
Lýðræðisumbætur eða lýðskrum?
Ein helsta krafa búsáhaldabyltingarinnar var um breytingar á fyrirkomulagi kosninga. Þar bar hæst ósk um persónukjör, þar sem áhrif einstaklinga á það hverjir kæmust á þing yrðu meiri en í hefðbundnum hlutfallskosningum lista. Nú hefur ríkisstjórnin lagt fram frumvarp sem virðist gera meira til að viðhalda valdi flokkanna en flytja vald til fólksins. Að auki vinnur frumvarpið gegn stefnu stjórnarflokkanna í jafnréttismálum.
Samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs tekur fram að lagt verði fram frumvarp um persónukjör og nefnir sérstaklega komandi sveitarstjórnarkosningar. Í greinargerð með frumvarpi um breytingar á kosningum segir: „Persónukjör er það kallað þegar kjósendur geta valið milli einstakra frambjóðenda í almennum kosningum án þess að flytja atkvæði sitt í heild frá einum flokki til annars.“ Í frumvarpinu kemur hins vegar fram að kjósendur fái að kjósa lista og raða einstaklingum á efsta hluta þess lista. Þetta kann að vera útgáfa af persónukjöri, en þetta er ekki persónukjör samkvæmt þeirri skilgreiningu sem frumvarpið leggur fram. Þetta svarar varla þeirri kröfu um breytingar sem sett var fram í búsáhaldabyltingunni.
Völd fólks eða flokka
Aðaláhersla á breytingar á kosningafyrirkomulaginu vörðuðu sveitarstjórnarkosningar. Eftir að ekki náðist að setja persónukjör inn í alþingiskosningar í vor var rætt um að gera tilraun með persónukjör þar og reyna svo að læra af þeirri reynslu áður en lengra væri haldið. Svo átti líka að setja á fót stjórnlagaþing sem endurskoðaði kosningafyrirkomulagið frá grunni. Nú liggur hins vegar fyrir þingi frumvarp um breytingar á lögum um kosningar til bæði þings og sveitarstjórna. Í staðinn fyrir að læra af reynslunni ætlum við að setja reglur núna, sem gæti þurft að breyta strax aftur. Allt þetta til að koma í gegn kosningafyrirkomulagi sem tekur völdin frá flokkunum. Í staðinn fyrir að stjórnlagaþing, þar sem flokkarnir eru ólíklegri til að eiga sæti, setji reglur um kosningar á Alþingi sjálft að setja þær. Tekur þetta völdin frá flokkunum? Þeir áttu allir fulltrúa í nefndinni sem samdi frumvarpið.
Fjölbreytileikinn er það sem víkur þegar „persónukjöri“ eins og það birtist í þessu frumvarpi er beitt. Ríkisstjórnarflokkarnir eru báðir með sterka femíníska sýn á samfélagið. Þessi ríkisstjórn sem nú situr hefur lýst sig fylgjandi jafnrétti kvenna og karla og vill leggja ýmislegt á sig til að koma því á. Flokkarnir hafa báðir beitt forgangsreglum til að tryggja aukinn hlut kvenna á þingi. Það hefur skilað því, að með vinstri sveiflu í sl. kosningum fjölgaði konum það mikið að þær eru loksins yfir 40% þingmanna. Með því að færa prófkjörin inn í kjörklefann væri verið að svipta flokkana réttinum til að hafa áhrif á kynjahlutföll á listum. Ríkisstjórninni ber skylda til að tryggja kynjajafnrétti, ekki standa í vegi fyrir þeim flokkum sem hafa reynt að koma því á.
4 comments:
Mismunun á ekki að eiga sér stað - ekki í neinum tilgangi. Kjósandinn á að vera frjáls í kjörklefanum og þar með óbundinn af allri rétthugsun.
Þátttaka þín í prófkjörssvindli VG hefur heldur betur dregið dilk á eftir sér. Það á eftir að koma enn betur í ljós.
við höfum greinilega mismunandi skilning bæði á mismunun og svindli. Endilega skoðaðu yfirlýsingu Stefáns Pálssonar um forval VG og úrskurð kjörstjórnar. Og svo má reyna að skrifa athugasemdir undir nafni.
Silja, það er innan flokkakerfisins sem konum hefur verið haldið niðri í pólitík. Tímarnir hafa sem betur fer breyst og á endanum þá hafði það áhrif á flokkana.
Ef alvöru persónukjör hefði verið við lýði þá hefðu konur átt mun greiðari aðgang að þáttöku í stjórnmálum amk síðustu 15 ár. Þ.e. þá hefðu konur geta sótt stuðning sinn beint til annara kvenna í staðinn fyrir að vera haldið niðri af íhaldssamri flokksmaskínunni.
Ég bara trúi ekki að þú trúir því að stjórnmálaflokkarnir séu verndarar jafnréttis. Það stenst ekki söguskoðun.
Ég vil halda því til haga að samtök um mikilvæg mál líðandi stundar (sbr Kvennalistinn) munu alltaf hafa mikilvægu hlutverki að gegna, en ég sé engin rök fyrir því að sá árangur hangi á flokkskjöri.
Arnþór - lestu síðustu málsgreinina. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa báðir sett sér stefnu sem tryggir hlut kvenna á listum. Kvennasveiflan svokallaða sem varð í síðustu þingkosningum er vegna þeirrar stefnu. Ég vil að flokkum sé gert kleift að tryggja kynjasjónarmið - eins og sumir þeirra hafa gert - ekki að flokkarnir með kynjasjónarmiðin komi í veg fyrir að eigin stefna haldi gildi.
Post a Comment