25.5.10

Magma og meirihlutinn

Ég hef verið á flakki síðustu vikurnar og lítið fylgst með fréttum að heiman. Hafði þó heyrt af fyrirhuguðu kaupum Magma á meirihluta í HS Orku en ætlaði mér að bíða þar til gögn kæmu inn um kaup Magma á nær öllu hlutafé í HS Orku en í ljósi þessarar fréttar um að Magma eigi nú þriðjung í Búlandsvirkjun get ég ekki orða bundist lengur. Magma Energy Sweden er á pappírunum eigandi þessa hlutar. Magma Energy, skráð á hlutabréfamarkað í Kanada, hefur hins vegar auglýst sig sem eiganda HS Orku, sbr. þessa auglýsingu frá Magma Energy á Íslandi í Fréttablaðinu sl. laugardag. Þetta er líka í samræmi við ítrekaðar yfirlýsingar eiganda Magma í Kanada, sem hefur oft sagst vera að kaupa HS Orku.

Er lesandi orðinn ringlaður á öllum þessum fyrirtækjum sem heita Magma Energy? Það er ekki nema von. Svona sýnist mér þetta vera: Kanadíska fyrirtækið fór í samninga við OR um kaup á HS Orku. Svo mátti það ekki kaupa af því það væri lögbrot. Þá reddaði það sér inn á markað með því að stofna fyrirtæki í Svíþjóð. Það batterí (sem margir kalla skúffufyrirtæki þótt margir lögfræðingar hafi bent mér á upp á síðkastið að það hafi enga lagalega merkingu). En það er of flókið að reka fyrirtæki í Svíþjóð, svo það stofnað fyrirtæki á Íslandi til að halda utan um eignir sænska fyrirtækisins. Athugulum lesanda kynni að detta í hug að spyrja af hverju íslenska fyrirtækið keypti ekki hlutaféð í HS Orku og sleppti þannig milliliðnum? Svarið við því er einfalt: Það væri hreint og klárt lögbrot og ekki bara á gráu svæði, því slíkt fyrirtæki væri skilgreint „undir erlendum yfirráðum“ og mætti ekki eiga í íslenskum orkuiðnaði.

Þetta stuðlaði að þeim skilningi okkar Bjarkar Sigurgeirsdóttur, fulltrúa Borgarahreyfingarinnar í nefnd um erlenda fjárfestingu, að þótt færa megi fyrir því einver rök að Magma í Svíþjóð sé inni á EES sé það lögmætt að takmarka staðfesturétt slíks aðila í eigu aðila frá þriðja ríki, enda endurspegli það þau markmið laganna að takmarka fjárfestingu aðila utan EES í orkuiðnaði á Íslandi. Þann vafa sem ríkir um málið vildum við túlka íslenskum almenningi í hag og til verndar auðlindum landsins. Álit okkar má lesa hér.

Allavegana: Ég get ekki orða bundist lengur vegna þess að þótt nefndin hafi áður samþykkt kaup á hlut í HS Orku þá þarf að tilkynna kaupin til nefndarinnar áður en þau ganga formlega í gegn og hún þarf að taka afstöðu til þeirra. Þá á Reykjanesbær eftir að samþykkja kaupin fyrir sína parta.

Í fréttum í dag sé ég að mín ágæta samstarfskona í nefndinni, formaðurinn Unnur G. Kristjánsdóttir, segir að enginn hafi kallað eftir fundi. Ég get ekki tekið undir þetta, Björk bað um fund þegar málið komst í fréttir og nefndinni bárust þau svör að verið væri að afla gagna. Málið snýst ekki um hvort íslenskir kapítalistar séu betri en erlendir (ég held að síðustu ár hafi sýnt okkur að svo er ekki), heldur að lögum samkvæmt mega sumir þeirra ekki kaupa. Frá mínum bæjardyrum séð eru þessi lög meingölluð en svona eru þau. Kaupunum er ekki lokið fyrr en allir aðilar hafa gefið grænt ljós.

Að lokum vil ég bæta því við – í ljósi þessarar spurningar um „ríkisfang“ kaupandans – að mér finnst mun mikilvægara að spyrja hvort orkuauðlindir eigi að vera á markaði. Ég tel að þetta sé hluti af grundvallarþjónustu sem ríkið á að veita. Bendi í því framhaldi á ræðu Sóleyjar Tómasdóttur í borgarstjórn þegar ákvörðun var tekin um sölu á hlutum HS Orku. Ræðuna má lesa hér  og hlusta á í hljóðskrá neðst á þessari síðu.
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment