24.3.10

rétturinn til heilsu

Ég skrifaði eftirfarandi pistil á Smuguna í gær, í tilefni þess að sjúkratryggingafrumvarpið varð að lögum.

***

Í dag skrifar Barack Obama, 44. forseti Bandaríkjanna, undir lög um sjúkratryggingar til handa hinum almenna Bandaríkjamanni. Því fer þó fjarri að um sé að ræða almannatryggingar eins og þær þekkjast á Íslandi, því enn verða einstaklingar að kaupa sér tryggingar á einkamarkaði. Eitt stærsta framfaraskrefið er að þeir sem ekki hafa haft aðgang að slíkum tryggingum á viðráðanlegu verði, um 32 milljónir manna, geta núna keypt sér tryggingar.

Í 25. grein mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna er tekið fram að allir eigi „rétt á lífskjörum sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan þeirra sjálfra og fjölskyldu þeirra.“ Þá er í inngangsorðum að stofnsáttmála Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar tekið fram að það séu grunnréttindi hverrar manneskju að njóta bestu mögulegu heilsu (um réttinn til heilsu má lesa hér). Flest vestræn ríki hafa litið á það sem skyldu sína að tryggja borgurum sínum þennan rétt, en það hefur flækst lengur fyrir Bandaríkjamönnum en flestum að koma slíku kerfi á. Tilraunir hafa verið gerðar til að setja á fót almannatryggingakerfi um árabil, að minnsta kosti frá því að Franklin D. Roosevelt lagði fram tillögu sína um endurnýjaða réttindaskrá fyrir Bandaríkin árið 1944. Þá var öldungadeildarþingmaðurinn Teddy Kennedy mikill baráttumaður fyrir almannatryggingum meðan hann sat á þingi. Þessar tilraunir hafa skilað takmörkuðum árangri, fyrir utan Medicare og Medicaid, sem tryggja aldraða og hina verst settu. Þetta er sérstaklega eftirtektarvert, þar sem Bandaríkin eru eitt ríkasta ríki í heimi. Í alþjóðasáttmálum er skýrt á um það kveðið að ekki einu sinni fátækustu ríki heims geti neitað því að tryggja borgurum sínum þennan rétt; þau verða að tryggja réttinn til heilsu að því marki sem þau hafa efni á. Þessu hafa Bandaríkin ekki staðið undir.

Breytingar

Fjöldamargir Bandaríkjamenn hafa sagst vera á móti frumvarpinu í könnunum. Hins vegar hafa ýmsar kannanir sýnt að þegar fólk er spurt um einstaka hluti sem breytast með lögunum, þá er það hlynnt breytingunum. Það virðist því þurfa að sannfæra fólk um gildi laganna og demókratar treysta á að þegar breytingar fara að verða á aðstæðum almennings muni þeir uppskera eins og þeir sáðu. Ýmis samtök og stofnanir hafa sett saman lista yfir tíu helstu atriðin sem almenningur ætti að vera upplýstur um varðandi frumvarpið, og hér eru nokkur dæmi.
Bannað verður að hafna fólki um tryggingu sem þegar hefur verið greint með sjúkdóm. Þetta hefur verið algeng orsök þess að fólk hefur verið ótryggt. Sums staðar er jafnvel leyfilegt að synja umsækjendum um tryggingu á grundvelli þess að það búi við ofbeldi í nánu sambandi, sem telst áhættusöm iðja.

Litlum fyrirtækjum og fólki sem vill kaupa sína eigin tryggingu verður gert kleyft að kaupa í „potti“ með fleirum í staðinn fyrir að reyna að fá afslátt fyrir fáa í einu. Lítil fyrritæki fá skattaafslátt fyrir að bjóða starfsmönnum upp á tryggingar. Niðurgreiðsla verður í boði fyrir fólk með takmörkuð fjárráð og miðað verður við fjórfalt fátæktarmark. Þak verður sett á greiðslur á hverju ári. Þeir sem ekki kaupa tryggingar verða sektaðir við skattframtal. Afleiðingarnar af þessu er að 32 milljónir manna, sem eru ótryggðar í dag, fengju sjúkratryggingar og 92% þeirra sem ekki fá tryggingar vegna aldurs verða þá tryggð. Fyrirtæki með fleiri en 50 starfsmenn verða skylduð til að bjóða upp á tryggingar. Litlar breytingar verða annars á tryggingum fyrir þá sem nú þegar njóta slíks aðgangs.

Aðrar umbætur á tryggingamarkaði fela í sér að bjóða verður upp á fyrirbyggjandi læknisskoðanir. Þá geta börn verið á tryggingu foreldra til 26 ára aldurs í stað þess að detta út af henni við útskrift úr háskóla. Ekki verður hægt að segja upp tryggingu eftir að fólk veikist eða takmarka hámarkssjúkrakostnað yfir ævina. Að lokum þurfa tryggingafyrirtæki að nota 80-85% af iðgjöldum í heilbrigðisþjónustu, en í dag geta þau tekið meira til sín í rekstur. Helstu breytingar fyrir eldri borgara, sem margir hverjir þurfa að eyða háum upphæðum í lyf, er að þeir fá endurgreiðslu á þeim kostnaði þar til tryggingarnar fara að greiða allan kostnað árið 2020.  Heildarkostnaður við frumvarpið eru 943 milljarðar bandaríkjadollara til tíu ára, sem fer aðallega í niðurgreiðslur til að fólk geti keypt sér tryggingar en lækkar væntanlega fjárlagahallann um 138 milljarða á sama tíma. Kostnaðurinn er einkum greiddur með gjaldlagningu á lyfjafyrirtæki og annan iðnað sem hagnast á auknu aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Bandaríkin eyða nú þegar 2,5 trilljónum dollara í heilbrigðiskerfið á ári hverju.
 

Sögulegur viðburður
Það er sögulegur viðburður að allur almenningur geti nú, og sé í raun skyldaður til að vera með sjúkratryggingar. Niðurstaðan lá síður en svo ljós fyrir og Obama frestaði ferð til Indónesíu um nokkra daga þegar fór að rofa til í málinu. Þannig gat hann aflað atkvæða fram á síðustu stund. En lögin voru dýru verði keypt og gera enga grundvallarbreytingu á heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna. Ríkið veitir ekki tryggingar eins og vonir stóðu upphaflega til. Eftir árs umræðu á þingi stóðu demókratar frammi fyrir því að færi frumvarpið til atkvæðagreiðslu í öldungadeildinni væri hægt að fella það á málþófi. Því þurfti fulltrúadeildin að afgreiða frumvarp öldungadeildarinnar óbreytt. Það færi síðan til Obama og eftir undirritun verður unnið úr „smáatriðunum“.

219 þingmenn demókrata í fulltrúadeildinni studdu frumvarpið. Þegar atkvæðagreiðslan fór fram var hægt að kaupa frumvarpið sem minjagrip, litlar 2407 blaðsíður í tveimur bindum á stærð við símaskrá. Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, er sögð hafa áritað nokkurn fjölda eintaka en talið er að enginn þingmaður hafi lagt sig jafn mikið fram um að koma frumvarpinu í gegn eins og hún. En um leið heyrðist sönglað „Kill the Bill“ fyrir utan þinghúsið, þar sem tepokahreyfing repúblikana var með mótmæli. Enginn repúblikani studdi frumvarpið og þeir hóta því að fella lögin úr gildi nái þeir meirihluta í þinginu í kosningunum í haust.
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment