9.2.10

syndajátning í moldviðri

Ég játa það hér með að ég studdi Sóleyju Tómasdóttur í forvali VG í Reykjavík. Eins og ég sagði í færslu hér að neðan þá er hún vinkona mín og hún hefur komið mér ánægjulega á óvart sem stjórnmálamaður þrátt fyrir að ég hafi haft á henni mikla trú fyrir.

Síðastliðinn laugardag sat ég ásamt nokkrum öðrum stuðningsmönnum Sóleyjar og hringdi í fólk sem ég taldi líklegt til að kjósa hana. Ég hef gert þetta fyrir vini mína áður, bæði í VG og í öðrum flokkum, auk þess sem ég hef kosið í forvali og prófkjörum til að styðja fólk sem ég tel líklegt til góðra verka. Ég hef líka flutt utankjörstaðaratkvæði fyrir fólk milli landa og landshluta, allt til þess að tryggja að fólk komi skoðunum sínum og vilja á framfæri á lýðræðislegan hátt.

Forvalsreglur VG eru – eins og flestar slíkar reglur – misskýrar og þær má svo sannarlega bæta. Póstkosning með utankjörstaðaratkvæðum fer fram samhliða hefðbundinni utankjörstaðarkosningu og hægt var að koma slíkum atkvæðum til skila þar til kjörstaðir lokuðu. Þetta vissum við sem sátum þarna saman og höfðum fengið staðfest frá kjörnefnd að við mættum láta fólk fá seðla ef það kæmist ekki á kjörstað, en utankjörstaðaratkvæðaseðlar voru til á rafrænu formi. Atkvæðin væru þá fyllt út af viðkomandi, sett í umslag og lokað, og það umslag sett í annað umslag þar sem þurfti að skrifa nafn og kennitölu, sem yrði borin saman við kjörskrá og kjörsókn.

Eitt af símtölunum sem ég hringdi var í konu sem svo vill til að var í námskeiðum hjá mér fyrir 3-4 árum. Hún byrjaði að skrifa hjá mér MA ritgerð en ég hef ekki séð hana í ca ár. Við höfum rætt pólitík og ég veit að hún kýs gjarnan í forkosningum svo ég ákvað að hringja í hana og athuga hvort hún hefði komist á kjörstað. Ég sagði henni því að það væri hægt að koma til hennar kjörseðli ef hún kæmist ekki á kjörstað. Hún afþakkaði. Ég man ekki einu sinni hvort ég sagði henni að ég væri að hringja frá Sóleyju, og ég spurði hana sannarlega ekki að því hvern hún ætlaði að setja í fyrsta sætið á listanum.

Þetta tilboð er nú orðið að sögu um það að ég hafi gengið í hús og borið atkvæðaseðla á nemendur. Faðir þessa fyrrum nemanda ásakaði mig líka um að ætla að koma í veg fyrir leynilega atkvæðagreiðslu, sem ég skil ekki alveg því viðkomandi hefði auðvitað fyllt út kjörseðilinn og sett hann í tvö umslög, sem einhver (ekki ég, því ég var ekkert að skutlast) hefði farið með á kjörstað.

Ég neitaði að tjá mig við Fréttablaðið í gær þar sem úrskurður kjörnefndar var ekki kominn. Hann liggur nú fyrir (en ég hef verið á ferðalagi og ekki komist í tölvu fyrr en nú). Við, stuðningsmenn Sóleyjar og aðrir frambjóðendur sem fóru eins að, vorum að fara að reglum rétt eins og við töldum okkur vera að gera. Frambjóðandinn sem kærði þetta þekkir staðreyndir málsins. Þessi umræða er að mínu mati lítið annað en moldviðri til að draga úr því að ung kona, Sóley Tómasdóttir, alkunnur róttækur femínisti, hafi lagt miðaldra mann að velli í keppni um oddvitasætið í forvali ríkisstjórnarflokks. Slíkt á auðvitað ekki að líðast.
Setja á Facebook

0 comments: