7.2.10

femínistar og karlabær

Listar í alls sex sveitarfélögum tóku á sig mynd í gær og nú eru fjórir stærstu flokkarnir komnir með fólk í efstu sæti í Reykjavík. Mér finnst mikið ánægjuefni að nú leiði tveir karlar og tvær konur lista í borginni. Sóley vinkona mín leiðir lista VG í Reykjavík. Hún og Þorleifur kepptu um fyrsta sætið - aðrir frambjóðendur stefndu ekki eingöngu á það sæti - en þau voru bæði varaborgarfulltrúar í upphafi kjörtímabils og höfðu hvorugt sóst eftir sæti þetta ofarlega á lista áður. Þau hafa bæði þroskast sem stjórnmálamenn á þessum tíma og eiga örugglega eftir að vinna vel saman. Þau voru líka nokkuð jöfn í forvalinu, Sóley vann 1. sætið með 44 atkvæða forskoti og hafði um 60 atkvæðum fleiri en Þorleifur í 2. sætið.

Það verður spennandi að sjá Sóleyju takast á við þetta verkefni. Hún er eflaust umdeildasti varaborgarfulltrúi fyrr og síðar, enda hefur hún verið í forystu femínískrar baráttu á Íslandi síðustu árin. Fólk sem heldur að femínismi sé það eina sem hún stendur fyrir á eftir að sjá annað í kosningabaráttunni. Persónulega hef ég verið aðdáandi Sóleyjar frá því ég kynntist henni og tel það forréttindi að eiga hana að vinkonu. Ég áttaði mig hins vegar á því í haust að ég hafði vanmetið hana sem stjórnmálamann. Ég er þess fullviss að margir eiga eftir að átta sig á því sama á næstu mánuðum.

Líf Magneudóttir var hástökkvarinn hjá VG, kom ný inn í flokksstarfið og var örugg í 3. sæti, á meðan "reynsluboltinn" Elín Sigurðardóttir lenti í 4. sæti. Elín er rétt um þrítugt en hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa innan flokksins. Þetta er enn sem komið er eini listinn þar sem þrjár konur eru í fjórum efstu sætunum, en karlar eru í 5. og 6. sæti.

Þetta er skemmtileg andstæða við það sem gerðist hjá Sjálfstæðisflokknum í Garðabæ, Álftanesi og Grindavík, þar sem varla er konur að sjá. Sjálfstæðisflokkurinn í Mosfellsbæ er ánægjuleg undantekning - sú sem sannar regluna, mætti segja - en þar eru þrjár konur í efstu fimm sætum. Ég á eiginlega ekki til orð yfir niðurstöðunum í Garðabæ - eða Karlabæ eins og hann var uppnefndur eftir prófkjörið 2006 - þar sem fjórir karlar taka aftur efstu sætin. Í kjölfar síðasta prófkjörs var konu kippt upp í 3. sætið, því flokkurinn virðist gera sér grein fyrir því að það þarf meira jafnvægi milli kynja - kjósendur hans hins vegar virðast ekki alltaf ná því. Og mikið skil ég vel að Ragný Guðjohnsen ætli ekki að punta listann hjá flokknum eftir þessar niðurstöður.

Á Akureyri tók líka femínisti 1. sætið hjá VG - Andrea vinkona mín sem ég kynntist þegar ég bjó fyrir norðan. Þar er hörkuklár og dugleg kona á ferð og ég óska Akureyringum til hamingju með að fá hana í bæjarmálin. Þar gætu konur leitt lista Sjálfstæðisflokks og VG eins og í Reykjavík, en Sigrún Björk, fyrrum bæjarstýra, býður sig fram í oddvitasæti hjá Sjálfstæðisflokknum og nýtur þess eins og Hanna Birna að hafa fengið að sanna sig í því hlutverki.
Setja á Facebook

1 comments:

Héðinn Björnsson said...

Það skal taka fram að karlar eru í meirihluta kjósenda Sjálfstæðisflokksins og konur í meirihluta kjósenda VG svo einhver kynjamunur milli þessara flokka er eðlilegur.

Líklega ýkja prófkjörsreglurnar svo þennan mun en ekki er þar gert ráð fyrir neinum hlutfallsreglum svo samhæfður listi 51% flokksmanna getur fengið öll sætin á lista flokksins. Sé vilji til að ná meiri blönduðum listum held ég að það þurfi að skoða breytingar á prófkjörsreglum.

Í Garðarbæ skal einnig tekið eftir því hversu miklum fjármunum var notað í prófkjör. Alhyglisvert verður að fylgjast með hvernig frambjóðendunum gengur að endurgreiða styrktaraðilum sínum.

Post a Comment