Eins og margir aðrir hef ég skoðun á virkjunum. Ég er afskaplega ánægð með það að nú þurfi að endurskoða virkjanaferli í neðri Þjórsá, sem skipulögð voru fyrir fjármagn frá Landsvirkjun. Viðbrögð þeirra sem vilja virkjanirnar koma mér ekkert á óvart; fólk sem styður orkufrekan iðnað vill fá orku til rekstrar á honum. En ég sé bara ekki að það sé eina leiðin til að skapa störf á Íslandi. Lítil og meðalstór fyrirtæki eru mér frekar að skapi, það kostar minna að stofna slík fyrirtæki og skaðinn er minni ef þau fara á hausinn (þetta er víst ægilega kvenlægt viðhorf, ég hef heyrt að í atvinnusköpunarsjóðum heyrist oft fuss þegar það kemur enn ein umsóknin frá konu sem vill "bara" skapa þrjú störf á einu ári - skiptir þá engu að það vill hún gera til að halda þeim um óforsjáanlega framtíð). Það, að reiða sig eingöngu - eða nær eingöngu á útflutningstekjur af einni afurð, áli - finnst mér algjört óráð.
En mér finnst alveg magnað að heyra þessa umræðu sem Davíð vinur minn benti mér á, að "umhverfisráðherra sé á móti framförum og orkunýtingu." Ég heyri einhvern veginn enduróminn af umræðunni um virkjun Gullfoss á fyrri hluta síðustu aldar, þar sem Sigríður í Brattholti stóð ein á móti "framfarasinnum". Hvar værum við í dag, ef henni hefði ekki heppnast ætlunarverk sitt? Hvað skapar Gullfoss, einn og sér, mikið af hreinum gjaldeyristekjum árlega? Ég leyfi mér að efast um að það sé umhverfisráðherra sem er á móti framförum. Hún bara sér framfarir ekki (eingöngu) í stóriðju - ekki frekar en Jónas frá Hriflu, sem sagði að sumir fossar væru "of góðir til að vera saurgaðir með verksmiðjum" (Unnur Birna Karlsdóttir, 2005: 246).
Okkur Íslendingum gengur gjarnan illa að læra af sögunni. Ég mæli þess vegna með góðri grein Unnar Birnu Karlsdóttur í Skírni, Gulls ígildi, um Gullfoss og breytilegar hugmyndir Íslendinga um hann. Hún fjallar um þingmanninn Bjarna frá Vogi, sem sagði á þingi á þrengingartímum árið 1919 að "landið væri ekki aðeins fagurt og frítt heldur auðugt á marga lund." Hann átti við fiskinn, landið, og orkuna og vísaði til þess að fögur náttúra dygði skammt til að brauðfæða landsmenn. Einhver sagði að hann hefði matarást á landinu. Við vitum í dag að það er ekki svo og sem betur fer eru valdhafar betur upplýstir en þingmennirnir árið 1919, sem töldu að "afl fossanna væri lykillinn að framförum og betri tíð á Íslandi" (Unnur Birna Karlsdóttir, 2005: 244-245). Gullfoss var ekki virkjaður og Ísland hvarf ekki í sjóinn. Orkan er góð, en hún er ekki allt.
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
0 comments:
Post a Comment