5.1.10

hverju á að hafna?

Í þessari bévítans Icesave umræðu virðist marga enn greina á um eitt lykilatriði. Á að hafna ríkisábyrgðinni eða hafna því að greiða. Ég hef aldrei getað skrifað upp á neitt hjá InDefense af því mér finnst framsetning þeirra alltaf gölluð. Í fyrra var það hugmyndin um að Íslendingar, svona ljóshærðir og litfríðir, gætu ekki verið hryðjuverkamenn. Undirliggjandi hugmyndin var auðvitað að hryðjuverkamenn væru "öðruvísi" en "við" hér á klakanum.* Og nú er það þessi áskorun til forsetans. Í henni er skorað á hann að synja nýsamþykktum lögum staðfestingar. Framhaldið er að hver sá eða sú sem skrifar undir telji það sanngjarna kröfu "að sú efnahagslega byrði sem ríkisábyrgðin leggur á íslenskan almenning og framtíðarkynslóðir þessa lands, verði borin undir íslensku þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu." Það er sumsé efnahagslega byrðin, ekki lögin eða samningurinn sem verið er að skora á forsetann að hafna (getur reyndar verið eðlilegt, undirskriftasöfnunin var byrjuð löngu áður en lögin voru samþykkt), þrátt fyrir að InDefense menn segist ekki vera að hafna því að greiða. En ég fæ ekki séð að forsetinn hafi umboð til þess að hafna þessari "efnahagslegu byrði".

Ég fékk þessa sendingu frá kunningja í Skotlandi í gær. Hann, eins og margir kollegar mínir sem hafa áhuga á Íslandi, fylgjast vel með þróun mála hérna. Flestum þykir ansi merkilegt að Ísland telji sig mögulega ekki þurfa að samþykkja greiðslur. Þetta er ágætis samantekt frá Channel 4 News.


En eitt kemur vonandi út úr þessu, og það er að tekið verður af skarið með hvernig þjóðaratkvæðagreiðslur eiga að fara fram, því það hlýtur að vera morgunljóst orðið að meirihluti þjóðarinnar telur forsetann hafa rétt á því að senda þjóðinni lög til afgreiðslu.

* Þetta er sami hugsunarháttur og kemur fram í nýlegri stefnu í Bandaríkjunum, að setja borgara ákveðinna ríkja í gegnumlýsingu en ekki aðra. Þeir eru nefnilega hættulegri en öfgamenn af öðru þjóðerni.
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment