31.12.09

annáll

Frumlegheit í gangi hér, en það tíðkast jú um áramót að renna yfir árið og rifja upp það sem stendur upp úr. Ég sleppti þessu reyndar í fyrra, svo ég man ekkert hvað stóð upp úr 2008. En 2009 var þetta helst í mínu lífi:


Ég bjó í fyrsta sinn eftir að ég fékk kosningarétt ekki við stjórn Sjálfstæðisflokksins. Það var hressandi tilbreyting.

Tærnar frusu næstum af mér við Niagara Falls og ég heimsótti Róm í fyrsta, en vonandi ekki síðasta skipti. Ég snerist í hringi á Marriott Marquis hótelinu á Manhattan, borðaði góðan mat í Brussel, lá í leti í Las Vegas, sá og heyrði Placido Domingo syngja og Yo Yo Ma spila í Hollywood Bowl, lagðist í gubbupest í Osló, gekk um slóðir Lisbethar Salander í Stokkhólmi, borgaði nærri 1200 krónur fyrir kaffibolla í Köben, fór á Lúsíuhátíð í Kristinehamn, dottaði í skoðunarferð um Hamborg og lifði á sushi í Berlín. Ég ferðaðist töluvert með lestum og þetta var mjög evrópskt ár, þótt ég hafi farið tvisvar til Bandaríkjanna.

Ég endurnýjaði kynnin við gamla vini og eignaðist nýja. Borðaði góðan mat í góðum félagsskap, hrópaði vanhæf ríkisstjórn (og stundum banani, ísbjörn, ljón) á Austurvelli og hljóp þaðan í bandaríska sendiráðið að horfa á Obama sverja embættiseið. Labbaði inn á Austurvöll þegar táragasi var beitt þar. Fagnaði fyrstu íslensku ríkisstjórninni með jafn marga karla og konur innanborðs á eftirminnilegan hátt. Kvartaði til Jafnréttisstofu um kynjaskekkju í Seðlabankaráði. Grét á árshátíð yfir klámi. Byrjaði að læra kínversku. Missti nokkrum sinnum stjórn á skapi mínu. Reyndi að bæta fyrir það. Hélt vel heppnaða ráðstefnu og fjölmarga fyrirlestra á ráðstefnum og fundum. Saumaði út og lærði að hekla en er enn ekki farin að prjóna þrátt fyrir verulegan jafningjaþrýsting. Kenndi og skrifaði. Fékk bókarkafla í hendurnar sem ég kláraði mánuði fyrir hrun og hló upphátt þegar ég las hann. Hugsaði um Icesave. Talaði um Icesave. Skrifaði um Icesave. Hlakka mikið til að hugsa minna um þetta mál í framtíðinni en grunar að það eigi eftir að dúkka upp ansi oft í rannsóknarverkefnum framtíðarinnar. Svekkti mig á Obama og áframhaldandi stríði og misrétti. Var í franska Marie Claire, ekki alveg tímaritið sem ég hefði búist við að lenda í. Lagði drög að fjölmörgum verkefnum fyrir næsta ár. Velti fyrir mér hversu mikið heimurinn minnkaði við hrunið og vona að það breytist. Hló mig máttlausa í hádegismat oft í viku, enda í besta selskap sem um getur þar.

Máltíð ársins: átta rétta sjávarréttamáltíð í Róm, sem ég, Olga og Riina stungum af frá fyrir eftirrétt. Eða kannski gay pride hábíturinn.
Bækur ársins: Millennium sería Stiegs Larssons (soldið seint).
Mynd ársins: Harry Potter (soldil klisja).
Lína ársins: Ég heiti Ísbjörg og ég er tjón.

Á næsta ári ætla ég að gera mikið til það sama. Stefnan er reyndar að heimsækja fleiri lönd utan Evrópu, en ég byrja á Tyrklandi í janúar og vonast til að fara til Mið-Austurlanda í sumarfríinu. Aðrar ferðir á dagskrá eru til Póllands, Úkraínu, Bandaríkjanna, Skotlands, Belgíu og Frakklands. Það er á fyrri hluta ársins, sá síðari er ómótaðri. Svo er ég að hugsa um að reyna að ákveða hvað ég vil verða þegar ég verð stór. Er það ekki ágætis áramótaheit?

Ég óska ykkur öllum gleðilegs árs og vona að það færi okkur meira jafnrétti og meiri frið en árið sem er að líða.
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment