23.12.09

af íhaldssemi

Ég tel sjálfa mig vera íhaldssama að mörgu leyti. Ég vil hafa hlutina á sínum stað, vita að hverju ég geng hvað varðar vöru og þjónustu, vil að nemendur mínir skrifi góða íslensku með réttri stafsetningu og þar fram eftir götunum. Þegar ég var í MH var verið að breyta einkunnum úr bókstöfum yfir í tölustafi. Nemendur voru brjálaðir. Þeir vildu hafa bókstafakerfið áfram. Þeir notuðu öll sömu rök og nemendur 15 árum á undan höfðu notað til að berjast fyrir því að viðhalda tölustöfum þegar rætt var um að taka upp bókstafi. Þegar ég fattaði þetta fór ég að hafa gaman af því að fólk teldi ungt fólk vera róttækt.

Ég hef hins vegar losnað við mikið af íhaldsseminni með árunum. Það er kannski ekki að undra, því rannsóknir í dag sýna að konur verða róttækari með árunum. Sumt finnst mér orðið ekkert róttækt, eins og til dæmis að það eigi að breyta nöfnum á nokkrum götum í Reykjavík til að heiðra fyrstu konurnar sem settust í bæjarstjórn fyrir 101 ári. Ég vildi reyndar að þetta hefði verið gert í kringum 100 ára afmælið, en rétt eins og það tók 151 ár, einn mánuð og 13 daga frá fæðingu Bríetar Bjarnhéðinsdóttur að vígja minnismerki um hana (sem reyndar tekur sig svakalega vel út núna í frostinu, mæli með að þið kíkið á það við Þingholtsstræti), þá mátti búast við því að þetta gerðist ekki á slaginu. Enda hefur Bríet ekki fengið götu kennda við sig, frekar en flestar konur (fyrir utan nokkrar úr Íslendingasögunum). Skúli fógeti átti tvær götur (og næstum þrjár eftir að Skúlagötunni var skipt í tvennt). Ætli honum dugi ekki ein svona til lengdar?

En ýmsir hafa orðið til að gagnrýna þessa breytingu. Miðað við hópinn sem ég sá á Facebook er þar ungt fólk í miklum meirihluta. Það telur að götur eigi að heita "sínum" nöfnum áfram. En það hefur lengi tíðkast að breyta nöfnum á götum þegar hverfi eru í uppbyggingu, rétt eins og er í Túnunum í dag. Þar hafa orðið miklar breytingar síðustu árin og tilvalið að nota tækifærið til að breyta þá nöfnum. En mér finnst þetta ekkert róttækt og hallast að því að fólk eigi eftir að jafna sig á því þegar til lengdar lætur að göturnar þarna í kringum Höfða eigi eftir að heita öðrum nöfnum. Er einhver að pirra sig á því í dag að Snorrabraut heiti ekki Hringbraut? Man einhver var Kærleiksstígur eða Skildinganesgata var? Eiginlega finnst mér þetta bara svolítið smart, svona í kjölfarið á allri umræðunni í fyrra, um að það þyrfti kvenlægar áherslur í bankana. Átti ekki íslenska fjármálakerfið að vera að miklu leyti þarna í kring? Minnum það á að hugsa ekki bara um karla með því að umkringja það kvennanöfnum.


Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment