21.12.09

óléttubann og illa þýddar fréttir

Skemmtileg lesning á RÚV í dag um að hershöfðingi nokkur í Írak hefði gert það að brottrekstrarsök ef hermenn undir hans stjórn yrðu óléttir. Það fer einstaklega í taugarnar á mér þegar talað er um ólétta menn, en í fréttinni er sérstaklega tekið fram að viðurlögin eigi bæði við um karla og konur. Þetta yrðu nú fréttir til næsta bæjar, að karlarnir í hernum gætu orðið óléttir.

En viti menn - Guardian segir okkur að viðurlögin eigi við um konur sem verða barnshafandi og karlana sem eiga þátt í getnaðinum. Ég veit að það er undirmannað á fréttastofum landsins þessa dagana, en það hlýtur einhver að gera athugasemdir þegar ekki er bara um málfræðivillur að ræða, heldur hreinlega atburði sem stangast á við raunveruleikann.

Svo má auðvitað velta því fyrir sér hversu breyttir tímarnir hljóta að vera, að hershöfðingjar séu farnir að finna fyrir áhrifum óléttu á framboð á hermönnum. 
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment