10.11.09

skipulögð glæpastarfsemi

Ótrúlegur fjöldi gullmola í viðtalinu við formann KSÍ í Kastljósi í gær. Þar voru m.a. engar kvittanir og ekki með undirskrift fjármálastjórans heldur (viðtalið má lesa hér og horfa á hér).

En eitt finnst mér standa upp úr - ekki beint varðandi þetta mál, en svona almennt. Nú standa þeir KSÍ menn á því fastar en fótunum að um skipulagða glæpastarfsemi hafi verið að ræða. Stuðningskór þeirra tekur undir. Ef femínistar (eða stjórnvöld) tala um að skipulögð glæpastarfsemi þrífist á strippstöðum, þá er það púað í hel.

Ég trúi því alveg að skipulögð glæpastarfsemi þrífist á þessum stað. Ég trúi því jafnvel að færslur hafi verið settar á kortið í heimildarleysi. En til þess þurfti kortið að rata inn á staðinn og í hendurnar á einhverjum nálægt posa. Dómari tók afsakanir fjármálastjórans ekki trúanlegar. Það skiptir litlu máli hvort hann hefur endurgreitt vinnuveitandanum eða ekki. Hann var á ferð í umboði KSÍ og ætti ekki að að hafa farið þarna inn. Og kommon, ég veit hvað viðgengst inni á svona stöðum. Hvernig getur maðurinn verið fáfróður um það, jafnvel eftir að hann fer þarna inn?

Við kannski getum sammælst um það, í kjölfar þessa máls, að skipulögð glæpastarfsemi þrífist á strippstöðum. Það er ákveðin lexía. Reynum að muna þetta næst þegar umræða um skipulagða glæpastarfsemi á Íslandi hefst.

Þrennt enn í framhaldi af þessu viðtali: 1) Samfélagið hefur vissulega breyst, en ekki svo mikið, frá því 2005. Mörgum fannst þetta ekki í lagi þá og finnst það ekki núna. KSÍ bara fattaði ekki að almennar siðareglur eiga líka að gilda þar. 2) Endurgreiðsla er ekki það sama og bætur. Fólk vill oft frekar sleppa því að fara í dómsmál og greiðir þá jafnvel óréttmætar kröfur. 3) Ef þessi færsla fer í taugarnar á þér, þá bið ég þig að íhuga að ég var hugsanlega sofandi þegar ég skrifaði hana.
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment