8.11.09

Obama fórnar hagsmunum kvenna

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti í gær frumvarp Obama til nýs sjúkratryggingafyrirkomulags. Það nær reyndar ekki að dekka alla Bandaríkjamenn, eins og draumurinn var, en ætlað er að 96% þjóðarinnar geti fengið sjúkratryggingar nái frumvarpið að verða að lögum. Það er hins vegar enn óvíst, því nú þarf öldungadeildin að taka frumvarpið fyrir og deildirnar greinir á um ýmis útfærsluatriði - eins og til dæmis hver á að borga. Ágætis samantekt á CNN hér.

Fæstir hinna svokölluðu bláu hunda í demókrataflokknum greiddu atkvæði með frumvarpinu. Einn repúblikani greiddi atkvæði með því. Ekki beint þverpólitísk samstaða, þótt Pelosi hafi sagt: "Demókratar studdu frumvarpið. Repúblikani studdi frumvarpið. Það er þverpólitískt."

Repúblikanar og íhaldssamir demókratar - nokkurn veginn þeir sem greiddu atkvæði gegn frumvarpinu - komu breytingu á frumvarpinu í gegn áður en það var samþykkt. Bandaríkin munu ekki leggja fjármagn til fóstureyðinga (nema ef um er að ræða nauðgun eða  sifjaspell, eða ef líf móður er í hættu) ef frumvarpið verður að lögum í núverandi mynd. Áratugalöng barátta kvenna fyrir réttinum til að ráða yfir eigin líkama þarf enn að halda áfram. Það undir manninum sem sagðist ætla að breyta stjórnmálum svo um munaði.
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment