Femínistafélag Íslands sendi frá sér góða ályktun í gær, þar sem þess er krafist að stjórn KSÍ segi af sér. Hún hefur enda ekki gert neitt af viti síðustu árin svo ég sjái. En látum það liggja milli hluta.
Eyjan gerir frétt úr ályktuninni. Myndskreytingin er ekki mynd af körlunum í stjórn KSÍ (eða þeim 2 konum og 14 körlum sem stjórnina skipa) og farið er fram á að segi af sér heldur af tveimur ónafngreindum ungum konum sem ég get mér til um að eigi að líta út fyrir að vera vændiskonur. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki myndavalið á bak við þessa frétt.
Ekki bætir svo úr skák óhemju kjánaleg bloggfærsla um ofsóknir femínista. Þar röflar að því er virðist vel gefinn maður um að hann hafi "álpast" inn á strípibúllu fyrir einhverjum árum og haft gaman af. Því megi ekki sakast við mann sem "álpast" til þess að skapa vinnuveitanda sínum milljónaskuld við slíkan stað árum seinna.
Ég botna ekkert í þessari lógík. Eyjan skreytir frétt um ályktun femínista með mynd af ungum konum sem eru kannski í vændi. Karlinn ætlast til þess að konur álykti ekki um að karlar ættu að sleppa því að eiga viðskipti með líkama kvenna. Ég er kannski eitthvað óvenjulega tilætlunarsöm, en er til mikils ætlast að fréttir um vændiskaupendur séu skreyttar með myndum af þeim? Og að karlar hætti að segja konum til um hvað þær mega og mega ekki gera?
Mig grunar svo sem hver svörin eru, en finnst þess virði að spyrja.
8.11.09
Subscribe to:
Post Comments (Atom)
0 comments:
Post a Comment