6.11.09

KSÍ og kampavín

Mér finnst alveg ótrúlegt að nokkur maður skuli verja það að hafa notað kreditkort vinnuveitanda síns til að kaupa sér fylgd "gleðikvenna" meðan hann spreðar milljónum á kampavín (lesið endilega góða athugasemd hér um fáránlegt orðalag í kringum vændi).

Hvort sem um er að ræða að maðurinn hafi notað kortið til að kaupa kampavín fyrir lægri upphæð, og það síðan straujað aftur, eða að hann hafi viljandi eða í vínæði eytt hærri upphæðum en hann kannski vildi gangast við. Hvort sem hann notaði kortið vinnuveitanda síns meðvitað eða óvart. Mín persónulega skoðun er að fólk ætti að láta það ógert að kaupa manneskjur yfir höfuð, sama í hvaða tilgangi það er. Og ekki halda því fram að þetta sé bara vinnusamningur.

Að kaupa aðra manneskju með milligöngu vinnuveitanda síns er svo allt annar handleggur.

Vinnuveitandi þessa manns heldur utan um skipulagt tómstundastarf langflestra íslenskra barna sem taka þátt í íþróttum. Vinnuveitandinn hefur varið manninn - eins og einhver risaeðla, afsakið, skriðjökull, reyndi að gera í Kastljósinu - með því að hann hafi fengið endurgreitt. Þrátt fyrir það telur dómari ekki ástæðu til að dæma manninum í hag. Sami dómari sakfelldi rekstraraðila strippklúbbsins fyrir skattamisferli, svo ekki var hann að hygla heimamanninum.

Vinnuveitandinn segir manninn vera fórnarlamb og enga ástæðu til að vera með yfirlýsingar um að kaup á strippi og manneskjum samræmist ekki stefnu hans og markmiðum. Vinnuveitandinn ætlast til að fólk setji börn sín í hendurnar á félagsskap sem normalíserar kaup á manneskjum. Er þetta það jákvæða sem fólk vonast til að börnin sín læri í íþróttahreyfingunni? Hefur ÍSÍ ekkert um málið að segja?

Mona Sahlin var staðin að því að misnota kort vinnuveitanda síns. Hún sagði af sér í kjölfarið. Ég verð að segja að mér finnst bílaleiga, bleiur og Toblerone saklausari innkaup en kampavín og konur. En grunnatriðið er það sama. Hún sagði af sér af því hún braut reglurnar. Hún notaði kort annars aðila til að fjármagna eigin neyslu - þótt hún hafi endurgreitt seint og um síðir.

Sem vekur kannski stærstu spurninguna í þessu samhengi: var viðkomandi starfsmaður að kaupa inn fyrir fleiri en sjálfa sig?

Bookmark and Share

Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment