6.11.09

persónukjör á Írlandi

Það er mikið lagt upp úr því í greinargerð með frumvörpum um persónukjör, sem nú liggja fyrir Alþingi, að verið sé að fara svokallaða "írska leið" í þeim. Undir þetta tekur Páll Baldvin Baldvinsson, í leiðara Fréttablaðsins í dag, þar sem hann segir að það fyrirkomulag sem lagt er til hér sé "reyndar þrautreynt á Írlandi".

Gott ef svo væri. Þá yrðu flestar mínar athugasemdir dauðar og ómerkar. Á Írlandi er nefnilega persónukjör. Þar er frambjóðendum ekki stillt upp eftir flokkslínum, heldur einfaldlega greint frá því á eftir nafni þeirra hvaða flokk þeir bjóða sig fram fyrir. Kjósendum er svo í sjálfvald sett hverja þeir kjósa. Þetta uppfyllir einmitt skilgreininguna á því sem greinargerðin með "persónukjörs"frumvörpunum kallar persónukjör. Að kjósendur geti "valið milli einstakra frambjóðenda í almennum kosningum án þess að flytja atkvæði sitt í heild frá einum flokki til annars."

Fyrir utan að vera alvöru persónukjörsfyrirkomulag, þá hefur fyrirkomulagið á Írlandi ekki unnið gegn fjölbreytileika eins og fyrirkomulagið á Finnlandi gerir. Finnska kosningakerfið er mun líkara því sem hér er verið að leggja fram. En í báðum þessum löndum hefur kosningaþátttaka verið undir 70% síðustu tíu árin (sjá Finnland og Írland). Ég myndi vilja skoða af hverju það er áður en lagt er upp með breytingar sem eiga að stuðla að lýðræði, því það er einmitt grundvallarþáttur í lýðræði að lýðurinn taki þátt í því.

Annað í pistil Páls Baldvins get ég alveg tekið undir. Lýðræði er alltaf í þróun og það á að vera það. Þetta frumvarp skilur völdin eftir í höndunum á flokkunum, miklu frekar en kjósendum. Það tekur ekki til endurskoðunar kjördæmaskiptingu, það hindrar aukinn fjölbreytileika þingmanna og það eykur völd flokkanna frekar en hitt. Þá eru engin rök færð fyrir því að sama fyrirkomulag eigi að nota við sveitarstjórnarkosningar og alþingiskosningar. Ég legg til að málið verði sett í hendurnar á stjórnlagaþingi. Þannig fá ekki íhaldsmenn allra flokka að hlutast til um að tryggja sín sæti í nýju kosningakerfi.

Bookmark and Share

Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment