4.11.09

fáfræði er vald - um persónukjör

Umræða um argagalin frumvörp til persónukjörs er nú hafin á þingi. Lögð voru fram tvö nær samhljóða frumvörp á sama tíma í sumar, þar sem lagt er til að kosningalögum verði breytt fyrir næstu kosningar, sem verða haldnar eftir rúma sex mánuði. Ég skrifaði stuttan pistil um þetta í DV í síðustu viku. Hann er svo hljóðandi:

==============

Lýðræðisumbætur eða lýðskrum?

Ein helsta krafa búsáhaldabyltingarinnar var um breytingar á fyrirkomulagi kosninga. Þar bar hæst ósk um persónukjör, þar sem áhrif einstaklinga á það hverjir kæmust á þing yrðu meiri en í hefðbundnum hlutfallskosningum lista. Nú hefur ríkisstjórnin lagt fram frumvarp sem virðist gera meira til að viðhalda valdi flokkanna en flytja vald til fólksins. Að auki vinnur frumvarpið gegn stefnu stjórnarflokkanna í jafnréttismálum.

Samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs tekur fram að lagt verði fram frumvarp um persónukjör og nefnir sérstaklega komandi sveitarstjórnarkosningar. Í greinargerð með frumvarpi um breytingar á kosningum segir: „Persónukjör er það kallað þegar kjósendur geta valið milli einstakra frambjóðenda í almennum kosningum án þess að flytja atkvæði sitt í heild frá einum flokki til annars.“ Í frumvarpinu kemur hins vegar fram að kjósendur fái að kjósa lista og raða einstaklingum á efsta hluta þess lista. Þetta kann að vera útgáfa af persónukjöri, en þetta er ekki persónukjör samkvæmt þeirri skilgreiningu sem frumvarpið leggur fram. Þetta svarar varla þeirri kröfu um breytingar sem sett var fram í búsáhaldabyltingunni.

Völd fólks eða flokka

Aðaláhersla á breytingar á kosningafyrirkomulaginu vörðuðu sveitarstjórnarkosningar. Eftir að ekki náðist að setja persónukjör inn í alþingiskosningar í vor var rætt um að gera tilraun með persónukjör þar og reyna svo að læra af þeirri reynslu áður en lengra væri haldið. Svo átti líka að setja á fót stjórnlagaþing sem endurskoðaði kosningafyrirkomulagið frá grunni. Nú liggur hins vegar fyrir þingi frumvarp um breytingar á lögum um kosningar til bæði þings og sveitarstjórna. Í staðinn fyrir að læra af reynslunni ætlum við að setja reglur núna, sem gæti þurft að breyta strax aftur. Allt þetta til að koma í gegn kosningafyrirkomulagi sem tekur völdin frá flokkunum. Í staðinn fyrir að stjórnlagaþing, þar sem flokkarnir eru ólíklegri til að eiga sæti, setji reglur um kosningar á Alþingi sjálft að setja þær. Tekur þetta völdin frá flokkunum? Þeir áttu allir fulltrúa í nefndinni sem samdi frumvarpið.

Fjölbreytileiki og femínismi

Fjölbreytileikinn er það sem víkur þegar „persónukjöri“ eins og það birtist í þessu frumvarpi er beitt. Ríkisstjórnarflokkarnir eru báðir með sterka femíníska sýn á samfélagið. Þessi ríkisstjórn sem nú situr hefur lýst sig fylgjandi jafnrétti kvenna og karla og vill leggja ýmislegt á sig til að koma því á. Flokkarnir hafa báðir beitt forgangsreglum til að tryggja aukinn hlut kvenna á þingi. Það hefur skilað því, að með vinstri sveiflu í sl. kosningum fjölgaði konum það mikið að þær eru loksins yfir 40% þingmanna. Með því að færa prófkjörin inn í kjörklefann væri verið að svipta flokkana réttinum til að hafa áhrif á kynjahlutföll á listum. Ríkisstjórninni ber skylda til að tryggja kynjajafnrétti, ekki standa í vegi fyrir þeim flokkum sem hafa reynt að koma því á.

==============

Í 1984 sagði George Orwell að fáfræði væri vald. Með því meinti hann að á meðan þú trúir því sem þér er sagt, þá hefur ríkið vald til að réttlæta hvað sem það vill. Ríkið á kannski eftir að koma þessu í gegn, sama hvað mér finnst, en ég hefði a.m.k. ekki gefið góða einkunn í ritgerð sem skilgreinir persónukjör svona: „kjósendur geta valið milli einstakra frambjóðenda í almennum kosningum án þess að flytja atkvæði sitt í heild frá einum flokki til annars“ en leggur svo fram frumvarp á þessum grundvelli þar sem kjósendum er einmitt meinað að velja milli einstakra frambjóðenda ÁN þess að flytja atkvæði sitt í heild á milli flokka.

Ég er mjög hlynnt breytingum á kosningalögum. Þetta frumvarp hins vegar breytir engu til betri vegar.

Setja á Facebook

2 comments:

Fridjon said...

Án þess að vera sammála öllu hér að ofan er ég sammála í meginatriðum.

sérstaklega því að þessi frumvörp eru argagalin.

Það sem mig langar til að skilja og fá svör við er spurningin hvers vegna menn telja eina lausn henta fyrir öll sveitarfélög?

Getur verið að í 1000 manna sveitarfélagi henti best eitthvað annað fyrirkomulag en það sem hentar best í 100.000 manna sveitarfélagi.

Hvers vegna er fyrirkomulag kosninga ekki fengið sveitarfélögunum sjálfum í hendur?

Ráðuneytið getur vottað að allt sé með réttum hætti, en alþingi á ekki að vasast í því hvernig menn kjósa til sveitastjórna.

Silja Bára Ómarsdóttir said...

já, Friðjón, það teldust sennilega fréttir til næsta bæjar ef við værum sammála um öll efnisatriði. Ég einmitt klippti gagnrýnina á sveitarfélagamálin út úr þessum pistli vegna plássleysis. Frumvörpin eru augljóslega samin fyrir þingkosningar og stórfurðulegt að ætla að láta þetta ganga jafnt yfir sveitarfélög stór og smá. Ég hef heyrt úr minni sveitarfélögum að þar sé fólk mjög ragt við að samþykkja að fara í framboð ef þetta gengur eftir. Áður gat það verið visst um að taka ákveðið sæti og kannski vera í einni nefnd - nú gæti það allt eins vel endað sem sveitarstjórnarfulltrúar án þess að vilja það.

Post a Comment