3.11.09

norræn fyrirmynd Schengen

Ég heyrði um það í síðustu viku að lögreglumenn hefðu ályktað um að Ísland ætti að fara út úr Schengen. Þetta rifjaðist upp þegar ég sá þessa frétt í morgun. Þetta heyrist reyndar oft, það eru ýmsir sem telja Schengen-samninginn frekar til þess fallinn að mismuna heldur en að stuðla að frelsi. En þetta voru ekki rökin, heldur að með því myndi glæpum fækka.

Ísland gekk í norræna vegabréfasambandið (Nordic Passport Union) árið 1965, en hin Norðurlöndin höfðu sett það á fót á sjötta áratugnum. Með þessu opnaðist frjáls för norrænna ríkisborgara milli landanna fimm. Munurinn er reyndar sá að við þurfum ekki einu sinni að hafa vegabréfin með okkur til Norðurlandanna.

Þegar Evrópusambandið fer að vinna að Schengen er horft til þessarar fyrirmyndar. Landamæraeftirlit er í raun flutt út. Fólk þarf samt að hafa vegabréfin á sér og sumstaðar er hreinlega bannað að vera skilríkjalaus (t.d. í Belgíu, þótt nemendur mínir trúi mér aldrei þegar ég röfla í þeim í námsferðum að vera nú með vegabréfin alltaf á sér).

Þrjú Norðurlandanna eru inni í ESB. Þau völdu að fara inn í Schengen. Þess vegna þurftu Ísland og Noregur að taka afstöðu til þess hvort segja ætti upp norræna vegabréfasambandinu eða fara inn í Schengen líka. Bæði töldu eðlilegra að halda norræna samstarfinu opnu, þótt Schengen væri umfangsmeira og skapaði jafnvel hættu á nákvæmlega því sem við stöndum nú frammi fyrir, þ.e. aukinni glæpastarfsemi.

En þegar fólk talar um að segja upp Schengen, þá mætti það alveg muna að við værum þá að segja upp opnum landamærum Norðurlandanna líka. Þekkjandi þjóðina sem er alltaf að springa úr pirringi við að þurfa að fara í gegnum öryggisleit við heimkomu frá Bandaríkjunum leyfi ég mér að draga í efa að það sé raunverulegur vilji hennar.

Bookmark and Share

Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment