25.11.09

16 daga átak

Í dag, 25. nóvember hefst alþjóðlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi. Það má rekja aftur til ársins 1991. Dagsetning átaksins, frá 25. nóvember, alþjóðlegum baráttudegi gegn kynbundnu ofbeldi, til 10. desember, hins alþjóðlega mannréttindadags, var valin til að tengja á táknrænan hátt kynbundið ofbeldi og mannréttindi. Tímasetningin var einnig valin til að leggja áherslu á mannréttindabrotin sem felast í slíku ofbeldi.
Markmið átaksins er að knýja á um afnám alls kynbundins ofbeldis.

Upphafsdagur átaksins tengist morðunum á Mirabal-systrunum í Dóminíkanska lýðveldinu, en þær voru myrtar af af Trujillo-stjórninni á þessum degi árið 1960. Dulnefni systranna var Las Mariposas, eða Fiðrildin. Fiðrildaherferð UNIFEM tengist þessum degi því líka - og í dag heldur UNIFEM á Íslandi upp á 20 ára afmæli sitt.

ÁTAK 2009
Leggðu þitt af mörkum – Farðu fram á aðgerðir: Saman getum við bundið enda á ofbeldi gegn konum!

Á alþjóðlegum baráttudegi gegn ofbeldi gegn konum, verður alþjóðlegu 16 daga átaki gegn kynbundu ofbeldi ýtt úr vör í 19. sinn. Átakinu verður formlega ýtt úr vör með Ljósagöngu til að vekja athygli á ofbeldi gegn konum og hvetja til aðgerða. Lagt verður af stað frá Þjóðmenningarhúsi kl. 19:00 og gengið niður að Sólfarinu þar sem Friðarsúlan verður tendruð kl. 19:45. Í fararbroddi verða  kyndilberar sem láta sig málefnið varða, m.a. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta Halldóra Geirharðsdóttir, leikkona, Jón Páll Eyjólfsson, leikskáld, Margrét Tómasdóttir, skátahöfðingi Íslands, Ragnhildur Gísladóttir, tónskáld og Þórdís Elva Þorvaldsdóttir Bachmann, höfundur bókarinnar Ofbeldi á Íslandi á mannamáli.
16 daga átak hefur í frá 1991 unnið að því að draga kynbundið ofbeldi fram í dagsljósið sem mannréttindabrot. Hópar og samtök um allan heim nýta átakið til að krefjast aðstoðar og stuðnings til handa fórnarlömbum ofbeldis, til að styrkja forvarnastarf og þrýsta á um breytingar á löggjöf til að bæta réttarstöðu þolenda. Þá hefur átakið verið nýtt til að stuðla að því alþjóðlegum mannréttindareglum sé beitt til að vinna gegn kynbundu ofbeldi sem mannréttindabroti, heilbrigðisvandamáli og ógn við mannfrelsi og frið um allan heim.
Enda þótt staða íslenskra kvenna sé sterk á mörgum sviðum þá er kynbundið ofbeldi alvarlegt vandamál hér á landi. Árið 2008 leituðu 547 einstaklingar til Stígamóta en frá upphafi samtakanna til ársloka 2008 hafa alls 5,279 manns leitað þar aðstoðar. 22 % íslenskra kvenna hafa einhvern tíma á ævinni hafa verið beittar ofbeldi af maka eða fyrrverandi maka en 530 konur hafa leitað til Kvennaathvarfs á árinu 2009 - komur til samtakanna eru frá upphafi um 5800.
Í 16 daga mun á fimmta tug stofnana og samtaka sem láta sig málefnið varða standa fyrir margvíslegum viðburðum í því augnamiði að vekja athygli á orsökum og afleiðingum kynbundins ofbeldis og krefjast aðgerða.
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment