26.11.09

Þakkargjörð

Í dag halda Bandaríkjamenn upp á Þakkargjörðarhátíðina. Þetta er alamerískur siður, þótt hann sé ekki óumdeildur. Evrópskir landnemar í Bandaríkjunum eru sagðir hafa átt að fagna góðri uppskeru með því að bjóða innfæddum að fagna með sér. Sennilega goðsögn eins og flestir aðrir siðir. En mér þykir vænt um þennan hátíðisdag og held hann sjálf hátíðlegan á hverju ári - en ekki endilega á fjórða fimmtudegi í nóvember, eins og Roosevelt ákvað að skyldi gera (það var gert í kreppu til að lengja verslunartímabilið fyrir jólin, fram að því var Þakkargjörðin haldin hátíðleg síðasta fimmtudag í nóvember).

Nú er mikið verið að auglýsa þakkargjörðarkalkúna og ég veit um nokkra vinnustaði þar sem boðið var upp á þakkargjörðarmat í hádeginu í dag. Maturinn skiptir vissulega máli*, en það sem ég held upp á við þennan dag er að hann minnir mann á að þakka - upphátt - fyrir eitthvað sem er gott í lífinu. Það er ágætis upprifjun stundum, sérstaklega þegar lítið er um jákvæðar fréttir í kringum mann.

Í dag fékk ég póst frá ritstjóra verkefnis sem ég tek þátt í. Sú hefur verið bundin við hjólastól í fjöldamörg ár, en þakkar fyrir viðvarandi heilsu og tækifærið til að vinna með okkur í rannsóknateyminu. Dóttir vinar míns, tveggja ára gömul, þakkaði fyrir afa sinn og ömmu - og mjólk. Ég þakkaði sl. helgi fyrir mótlætið, sem annars vegar minnir mann á það hvað maður hefur það nú gott almennt, og hins vegar hjálpar manni að muna hvað það er sem maður virkilega vill. Fyrir hvað þakkar þú?

===========

* Ef þú ætlar að elda kalkún upp á ameríska mátann, þá er algjör skylda að hafa trönuberjasósu með. Einföld og góð leið til að búa hana til er að setja 1,5 dl af appelsínusafa, 300g af appelsínumarmelaði og kanilstöng (brotna í tvennt) í pott og ná upp suðu. Skella svo einum poka af ferskum trönuberjum út í og sjóða þar til berin springa (hljómar eins og þau séu að poppa). Lækka undir og láta malla í nokkrar mínútur (þar til bleiki liturinn verður ráðandi). Slökkva undir og kæla í minnst þrjá tíma, helst yfir nótt. Þetta má gera 2-3 dögum fyrir kalkúnaátið.
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment