6.10.09

...stein gef ég ykkur aldrei

Ég horfði auðvitað á eldhúsdagsumræður. Veit stundum ekki af hverju ég er að eltast við það að fylgjast með pólitíkinni, eins fyrirsjáanleg og hún gjarnan er. En það koma svona augnablik, af og til, þegar ég man af hverju þetta er heillandi fag. Margt var þó fyrirsjáanlegt í kvöld, og miðað við viðbrögðin á Facebook, þá eru flestir ánægðir með sitt fólk.

Ég hafði hinsvegar einsett mér að klára loksins Sjálfstætt fólk, sem ég var að lesa síðsumars (í fyrsta skipti í sennilega 20 ár) en lagði til hliðar þegar skólinn byrjaði. Mundi ekki nákvæmlega hvar ég var, og opnaði bókina þar sem draugurinn er að stúta ánum hans Bjarts, einni af annarri. Þessi dularfullu öfl, sem birtust um leið og frysti og murkuðu lífið úr þeim "á fáránlegasta hátt" fengu Bjart til að bjóða þeim að berjast við sig. Bjartur "skoraði á dularföfl tilverunnar öll í senn að sýna af sér manndáð og koma fram opinberlega, sagði að nú gætu þau ekki látið sér sæma að fela sig á bakvið tilveruna leingur". Hann bölvaði þeim þar til honum datt í hug að þau gætu nærst á bölvunum.

Bjartur greyið átti ekki margra kosta völ. "Átti hann að láta hulda krafta standa uppí hárinu á sér? Eða átti hann að fara til manna og leita ráða? Eða bölva í einrúmi og bíða þangað til verur úr öðrum heimi væru búnar að kála öllu fénu og brjóta bæinn"? Hann fer að grýttri gröf draugsins, sem hann grunar að standi fyrir ódæðisverkunum. Hann tekur lítinn stein og heldur á honum meðan hann skammast í draugnum. "Haldið þið áfram," segir hann, "en ég læt ekki kúga mig." Með því að henda steininum í leiðið væri Bjartur væntanlega að játa á sig hjátrú og einhverja uppgjöf þar með. Enda sakar hann drauginn um að halda að hann sé hræddur, af því hann heldur á steininum. "En stein gef ég ykkur aldrei". Enda var Bjartur sjálfstæður maður og þurfti ekki á öðrum að halda.

Það fraus nóttina sem Bjartur jós úr skálum reiði sinnar yfir draug sem hann neitaði að trúa á. Steininum kastaði hann, bara ekki í leiði draugsins. Það er ekki frá því að ég hafi séð einhverjar tengingar milli Bjarts og þeirra sem jusu úr skálum reiði sinnar yfir alþjóðakerfið í kvöld. Sérstaklega í ljósi þess að það fór að snjóa í kvöld.
Setja á Facebook