7.10.09

hvorki gildishlaðin né afstæð

Ég sé að margir hafa hnotið um þau ummæli Björns Bjarnasonar, fyrrum dóms- og kirkjumálaráðherra, að hann telji orðið mannréttindi of gildishlaðið til að eiga heima í titli ráðuneytis. Ég hélt að fólk væri að grínast þegar ég heyrði þetta í dag. Margir muna skýrt eftir því þegar frú Vigdís Finnbogadóttir sneri aftur frá Kína eftir Kvennafund Sameinuðu þjóðanna, og gaf til kynna í viðtali að mannréttindi væru afstæð. Í dag er gjarnan talað um þetta sem blett á annars hnökralausum forsetaferli hennar.

Björn er reyndar ekki lengur í embætti, en mér finnst ótrúlegt að heyra að nokkur stjórnmálamaður (núverandi eða fyrrverandi) skuli í dag tala um mannréttindi sem gildishlaðið fyrirbæri. Mannréttindi eru skýrt og skilmerkilega skilgreind í alþjóðlegum og innlendum lögum og samningum. Í þeim felast einstaklingsbundin og samfélagsleg grundvallarréttindi. Þau skilgreina réttindi einstaklinga í samfélagi og vernd þeirra gegn ríkinu, réttinn til að til dæmis standa utan við ríkiskirkju, eins og þá sem enn er rekin hér á landi.

Það er ekkert gildishlaðið við þau - og ég hallast einnig að því að ekkert við þau sé afstætt, því eins og orðið gefur til kynna, þá er það mennska okkar sem skapar okkur þessi réttindi.

Í Gárum haustið 2007 fjölluðum við Edda Jónsdóttir um mannréttindamál. Einnig mæli ég með því að fólk lesi mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna (eða skemmtilega myndskreytta útgáfu hér)og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem eru ekki síður mikilvæg. Allt er þetta á íslensku, enda hefur Mannréttindaskrifstofa Íslands unnið frábært starf að mannréttindamálum á landinu, þrátt fyrir að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafi veitt henni lítinn stuðning.

Lokaorð dóms- og kirkjumálaráðherrans fyrrverandi vekja svo allt aðra spurningu. Skildi hann svo illa við ráðuneytið að innanríkisráðuneytið ætlaða þurfi að byggja á rústum þess?
Setja á Facebook