19.10.09

orðalag um vændi


Eftirfarandi skeyti sendi ég til jafnréttisfulltrúa embættis Ríkislögreglustjóra í dag. Ef aðrir femínistar vilja gera sambærilega athugasemd, má nota þetta skeyti sem fyrirmynd að vild.

Myndin fylgdi ekki með, en er birt hér til að minna á að það eru kaupendur, ekki seljendur, sem skapa eftirspurnina.

========================

Mér er tjáð að þú sért jafnréttisfulltrúi Ríkislögreglustjóra og mig langar því að koma á framfæri athugasemd sem ég vona að verði tekin til skoðunar hjá embættinu og lögregluembættum í heild.

Sl. föstudag birtist frétt á Lögregluvefnum um að vísbendingar séu um að skipulögð glæpastarfsemi færist í vöxt hér á landi (http://www.logreglan.is/displayer.asp?cat_id=81&module_id=220&element_id=14546) . Mér þykir ástæða til að fagna því að lögreglan veki athygli á þeim glæpum sem eiga sér stað hér og byggja á nauðung fólks. Þó hnaut ég um orðalag í fréttinni, en þar var sagt: „Í höfuðborgum nágrannalandanna hafa erlendar vændiskonur, sem leita viðskiptavina á götunni,valdið margvíslegum vanda á undanliðnum árum. Þar er um að ræða þaulskipulagða glæpastarfsemi sem erlendir glæpaflokkar halda einkum uppi, oft með aðstoð heimamanna.“

Fyrsta setningin í þessari tilvitnun snýr á haus þeirri hugsun sem býr að baki sænskum, íslenskum og norskum lögum um vændi, þar sem kaupin eru refsiverð en ekki salan. Þá er því sjónarmiði gert hátt undir höfði að vændiskonurnar séu vandinn, en hvorki sú skipulagða glæpastarsemi sem setur þær á göturnar, né eftirspurn þeirra sem kaupa sér aðgang að líkömum þeirra.

Ég bið þig um að koma þessari athugasemd á framfæri við greiningardeild lögreglustjóra og vonast til að í framtíðinni verði ábyrgðin lögð á rétta aðila í umfjöllun um jafnmikilvægt málefni og hér um ræðir. Ábyrgð embættisins á þessu sviði er mikil, enda var umrædd tilvitnun tekin óbreytt og gagnrýnislaust upp af flestum fjölmiðlum á landinu, sem gerir það að verkum að umræðan og meðvitund almennings litast af þessu sjónarmiði.

Með vinsemd og virðingu,
Silja Bára
Setja á Facebook