21.10.09

hvar eru karlarnir?

Ég komst að því í dag að það eru 13957 nemendur við Háskóla Íslands. Nemendum fjölgaði mikið í fyrra þegar KHÍ og HÍ sameinuðust og til viðbótar eru í ár 1721 nemanda fleiri en voru fyrir ári. Þar af eru karlar rétt um þriðjungur, eða 4708. Konur eru næstum tvöfalt fleiri eða 9249 (það eru sumsé 4541 fleiri konur en karlar) og þar af leiðandi tveir þriðju nemenda. Í Bandaríkjunum er líklegt að skóli með þetta kynjahlutfall færi að huga að inntökuaðferðum sínum. Það kemur ekki til greina hér, þar sem allir sem hafa lokið stúdentsprófi eiga rétt á að stunda nám við HÍ.

Konur hafa lengi verið meirihluti nemenda í flestum háskólagreinum á Íslandi, en þetta finnst mér ótrúlegur munur. Sérstaklega í ljósi þess að karlar eru enn fleiri en konur á atvinnuleysisskrá og mikið var rætt sl. vetur að atvinnuleysi myndi aukast mikið í karllægum geirum og að vænta mætti mikillar fjölgunar í háskólum í kjölfarið. Karlarnir virðast alls ekki vera að skila sér í nám, a.m.k. ekki við HÍ.

Hvað getur valdið þessu? Ég velti spurningunni upp á Facebook og fékk ýmsar hugmyndir. Ein athugasemdin var að áður hefðu konur rýmt vinnumarkaðinn í kreppum til að snúa aftur inn á heimilin. Í dag færu þær ekki inn á heimilin, heldur í nám - ekki endilega meðvitað til að rýma vinnumarkað heldur til að styrkja stöðu sína að kreppunni lokinni. Önnur var að kannski væru konur duglegri, áhugasamari og vanari meira áreiti. Þá kom til umræðu hvort skólakerfið væri að bregðast strákum, þeim gengi verr á fyrri skólastigum og væru því ekki undirbúnir fyrir háskólanám. Fyrirvinnumódelið kom líka upp: atvinnuleysisbætur eru jú hærri en námslán (og þarf ekki að endurgreiða) svo kannski karlarnir hafi ekki efni á að fara í nám ef þeir ætla að vera alvöru karlar og sjá fyrir fjölskyldunum. Um leið var bent á að ef annar aðili í hjónabandi er með vinnu, þá getur hann nýtt skattkort maka. Þannig að ef karlinn er með vinnu, en konan ekki, þá getur borgað sig að vera í námi en ekki á atvinnuleysisbótum. Svo er auðvitað það, að eldri* konur eru enn að vinna upp halla frá fyrri árum, þegar þær gátu ekki farið í nám vegna aðstæðna/barneigna/náms maka o.s.frv.

En hvað sem því líður, þá er tvennt við þetta sem ég velti fyrir mér: Hvað verður núna um strákana sem hættu í framhalds- og háskólum og fengu þokkalega launuð störf í gróðærinu? Og mun staða kvenna á vinnumarkaði styrkjast í samræmi við hærra hlutfall þeirra í háskólanámi? Fyrri spurningunni hef ég engin svör við. Þeirri seinni er ég hrædd um að ég muni getað svarað neitandi eftir nokkur ár - þótt ég haldi enn í vonina um að ég hafi rangt fyrir mér.

*þ.e. konur sem ekki eru nýútskrifaðar úr framhaldsskóla
Setja á Facebook