28.10.09

jafnrétti í ESB - kvennabylting Barrosos

Skemmtilegt blogg á EU Observer nýlega, þar sem fjallað er um kvennabyltingu Barrosos. Ole Ryborg bendir á að Barroso hafi nýlega sent öllum þjóðhöfðingum og forsætisráðherrum ESB ríkja þar sem hann fór fram á að sér yrði gert kleyft að skipa framkvæmdastjórn þar sem ríkti jafnrétti. Til þess þyrftu ríkin að tilnefna konur.* Barroso þarf líka eflaust að sýna framfarir í jafnréttismálum frá síðustu framkvæmdastjórn til að sú nýja fái samþykki Evrópuþingsins - þótt ríkin geti haldið því fram endalaust að það finnist bara ekki hæfar konur.**

ESB er í lykilstöðu núna hvað varðar jafnréttismál og Barroso virðist gera sér grein fyrir því. Ryborg vill meina að Barroso ætli sér að nota "spennandi" stöður til að fá aðildarríkin til að tilnefna konur, en um leið getur hann sýnt að hann ætli sér að ráða. Með því að fjölga konum í framkvæmdastjórninni myndi ásýnd ESB batna til muna. Og ekki veitir af, því Barroso er formaður framkvæmdastjórnar, hinn pólski Jerzy Buzek forseti Evrópuþingsins og frekar ólíklegt að kona verði annað hvort forseti leiðtogaráðsins eða utanríkismálastjóri (eða hvað á að kalla það apparat).

Barroso nýtur góðs af því að nú er Svíþjóð í forsæti ESB, og ríkisstjórnin þar hefur lagt áherslu á að koma jafnréttismálum á framfæri. Spánn tekur við af Svíþjóð, og spænska ríkisstjórnin hefur verið tilbúin til að ganga lengra en flestar aðrar ríkisstjórnir í Evrópu til að jafna stöðu kynjanna. Pólitískur vilji er lykilatriði við að koma jafnrétti á. Bæði Barroso og Buzek nefndu jafnréttismál í opnunarræðum sínum þegar Evrópuþingið kom saman í haust. Það hefur víst aldrei gerst áður. Um leið var sænskur femínisti, Eva-Britt Svensson, settur yfir jafnréttisnefnd þingsins. Hún hefur það á dagskrá að stofna embætti framkvæmdastjóra jafnréttismála.

Það er fátt sem mér finnst áhugavert við ESB, en þróunin í jafnréttismálum á næstunni gæti hreinlega orðið það.

=========
*Ætli þarna sé komin enn ein ástæðan fyrir Sjálfstæðisflokkinn til að vera á móti ESB-aðild? VG getur a.m.k. ekki notað þetta, enda er flokkurinn hlynntur kynjakvótum.

**Skemmtileg samlíking reyndar, hjá Ryborg, að í Noregi hafi því verið haldið fram að ekki væru til hæfar konur til að setjast í stjórnir eftir að kvótar voru settir á þar, menntastig í stjórnum myndi lækka og fyrirtæki jafnvel flýja land. 460 fyrirtæki féllu undir lögin, öllum tókst að finna konur, menntastig stjórnarmanna er hærra og ekkert fyrirtæki hefur flúið land.

Bookmark and Share

Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment