10.10.09

auglýst eftir orði

Í fréttum sjónvarpsins í kvöld var fjallað um fyrstu lýtaaðgerðafegurðarsamkeppnina, sem fór fram í Ungverjalandi. Mér finnst stórfurðulegt að tala um það sem þessar konur hafa látið gera við sig sem "lýtaaðgerð". Lýtaaðgerð í mínum huga þegar verið er að lagfæra eitthvað, enda segir íslensk orðabók að lýti sé "ljóður, galli" eða "ljótleiki". Sjálf hef ég farið í lýtaaðgerð, til að jafna á mér ennið eftir að höfuðkúpubein greri illa eftir brot. Læknirinn minn vildi gera aðra aðgerð, það fannst mér óþarfi vegna þess að þá væri þetta farið að snúast um fegrun en ekki að leiðrétta lýti.

Flestar höfðu keppendurnir farið í brjóstastækkun og margar látið laga á sér nefið. Ég efast stórlega um að minni brjóst hafi verið mikið lýti á þeim, og hvað þá að sú sem hafði látið fegra á sér tærnar hafi fundið fyrir miklum fordómum vegna þeirra fyrir.

Fegrunaraðgerðafegurðarsamkeppni hlýtur því að vera rétta hugtakið. Það er þó ekki beint þjált, og þótt ég voni að þessar keppnir verði ekki mjög algengar þá held að það sé borin von að fjölmiðlar hætti að fjalla um þær. Þannig að ég vonast til að sjá betra orð yfir þetta fyrirbæri. Svo fer ég fram á það að fréttastofur hætti að tala um lýtaaðgerðir og fegrunaraðgerðir sem eitt og hið sama.
Setja á Facebook