5.9.09

spilling eða hagsmunir

Ég rak augun í tvær óskyldar fréttir á mbl í dag. Önnur er þessi, að Bretar hafi látið viðskiptahagsmuni hafa áhrif á þá ákvörðun sína að sleppa Líbýumanni, sem sat í fangelsi vegna Lockerbie málsins, úr haldi. Ljótt, segja margir, að svona lagað viðgangist, en í alþjóðasamskiptum er gjarnan vísað til þess að ríki eigi ekki vini heldur einungis hagsmuni. Það er því talið eðlilegt að þau setji hagsmuni - einkum efnahagslega og hernaðarlega - ofar siðferðilegum atriðum. Þetta er auðvitað raunsæ (e. realist) nálgun á alþjóðasamskipti og alls ekki sú mynd sem flestir einstaklingar myndu vilja sýna af sjálfum sér. En það er einmitt munurinn, að þetta eru ríki, en ekki einstaklingar. Stór ríki sérstaklega hafa, í krafti valds síns, efni á því að hegða sér "ósiðlega", því fáir geta refsað þeim fyrir það.

Hin fréttin er um litlu kínversku stúlkuna, sem vill verða spilltur embættismaður þegar hún verður stór. Þeir eigi nefnilega svo marga fína hluti. Þeirri stuttu ku vera hrósað í hástert fyrir raunsæja sýn sína á heiminn. Samt er talað um spillingu þarna, þrátt fyrir að hún sé að forgangsraða sínum eigin hagsmunum - hér efnahagslegum - fram yfir siðferðið. Enda viljum við eflaust flest að fólk hagi sér í samræmi við siðareglur en sé ekki bara í hagsmunapoti alla daga. Stúlkan myndi eiga erfitt uppdráttar í vinahóp ef hún hegðaði sér í persónulegum samskiptum eins og Bretland gerir í milliríkjasamskiptum.

En hneykslanin sem skín í gegnum viðbrögð margra við fréttinni um hegðun Breta í þessu máli er óneitanlega skondin. Margir töldu einmitt að við ættum að forgangsraða hagsmunum okkar ofar siðferðislegum skyldum í alþjóðadeilum tengdum bankahruninu. Það er kannski ekki sama hver á í hlut?
Setja á Facebook