6.9.09

Egill, Sjálfstæðiskonur og jafnrétti

Fyrsta Silfur Egils í haust fór í loftið áðan. Ég hafði annað augað á þættinum meðan ég kláraði að pakka og missti af endanum þar sem ég þurfti að hlaupa út. Það sem ég sá voru fimm karlar (fyrir utan Egil) og ein kona. Nýja Ísland er greinilega ekki mikið fyrir kynjajafnrétti. Í 3. gr. laga um RÚV er tekið fram að þjónusta RÚV sé í almannaþágu og að dagskrárgerð skuli endurspegla fjölbreytni íslensks þjóðlífs. Sjónarmið kvenna eru greinilega ekki sjónarmið almennings í þessum þætti og lítil þörf á að endurspegla þau í þessum þætti. Enga jafnréttisstefnu RÚV er að finna á vef stofnunarinnar í fljótu bragði, en fundargerð frá 2005 vísar þó til þess að áætlun sé til staðar. RÚV fær skömm í hattinn frá mér.

Landssamband sjálfstæðiskvenna, hins vegar, fær hrós dagsins. Á fundi um helgina var samþykkt ályktun um að Sjálfstæðisflokkurinn setji sér jafnréttisstefnu, og þótt fyrr hefði verið. Flott að sérstaklega sé tiltekið að efstu sæti skuli jafnt skipuð konum og körlum, enda breytast hlutföll kjörinna fulltrúa ekki fyrr en það verður. Þar sem ég var beðin um að vera með erindi á fundinum en komst ekki þykir mér sérstaklega skemmtilegt að sjá ályktun frá fundinum á þessum nótum.
Setja á Facebook