14.9.09

skúffufyrirtæki innan EES

Ég sit í nefnd um erlendar fjárfestingar, sem hefur það hlutverk að fylgjast með að ákvæðum 4. gr. laga um erlendar fjárfestingar nr. 34/1991 sé framfylgt. Í 4. gr. laganna er fjallað um takmarkanir á fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri hérlendis og í 2. mgr. 4. gr. kemur fram að íslenskir ríkisborgarar og íslenskir aðilar auk lögaðila í öðrum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins megi einir eiga virkjunarréttindi vatnsfalla og jarðhita önnur en til heimilisnota. Sama á við um fyrirtæki sem stunda orkuvinnslu og orkudreifingu og sambærileg ákvæði eiga við um fjárfestingar í sjávarútvegi.

Lögunum er ætlað að takmarka aðkomu erlendra aðila að ákveðnum atvinnugreinum, en vegna aðildar Íslands að samningnum um evrópska efnahagssvæðið njóta aðilar innan þess sömu réttinda og íslenskir lögaðilar og einstaklingar.

Ég og fleiri nefndarmenn höfum fengið spurningar um það hvort Magma Energy Sweden AB, sem virðist uppfylla skilyrði laganna að forminu til, uppfylli efnisleg skilyrði. Er eðlilegt að fyrirtæki í fullri eigu aðila utan EES geti fjárfest í grunnstoðum íslensks samfélags, sem ljóst er af lagastoðum að ætlun ríkisins er að verja erlendum afstkiptum að einhverju leyti?

Það hlýtur að þurfa að skoða aðkomu erlendra aðila að fjárfestingum hérlendis í nýju ljósi vegna þeirra aðstæðna sem nú eru í íslensku samfélagi.

Fjallað var um málið í hádegisfréttum RÚV og væntanlega verður eitthvað um þetta í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Setja á Facebook