13.9.09

Borlaug látinn

Norman Borlaug, handhafi friðarverðlauna Nóbels fyrir framlag sitt til Grænu byltingarinnar, hélt ræðu árið 2000 í tilefni af því að þrjátíu ár voru liðin frá því honum voru veitt verðlaunin. Í erindinu fór hann yfir tölur sem sýndu að árið 1999 var nægur matur í heiminum til að uppfylla næringarþörf allra íbúa heims. Heildarframleiðsla á mat var rúmlega 5 milljarðar tonna. Þar af komu 99% af landi, aðeins 1% úr sjó og vatni. 92% þess matar sem mannfólkið neytir kemur beint af plöntum, þar af fáum við 70% matar af 30 plöntutegundum. Hin 8%, sem eru dýraafurðir, byggja líka á plöntum. Hefði þessum 5 milljörðum tonna verið skipt þannig niður á íbúa heims að allir fengju 2350 kaloríur á dag, hefði verið hægt að næra hvert mannsbarn og 900 milljónum betur. Annað væri þó uppi á tengingnum ef allir jarðarbúar ætluðu sér að fá 70% sinnar orku úr dýraafurðum eins og við gerum á Vesturlöndum – þá hefði einungis helmingur mannkyns fengið nægan mat. Það er því fátækt og misskipting sem hefur mest áhrif á hungur í heiminum, ekki framleiðsla.

Þótt það sé nærri áratugur liðinn frá því ræðan var haldin þá er ástandið enn sambærilegt. Ég fjallaði um hungur í alþjóðasamhengi í Gárum fyrir rúmu ári síðan, hægt er að hlusta á þáttinn hér.
Setja á Facebook