7.9.09

nafnlausir rógberar

Ég sé að það hefur einhver umræða komist í gang heima um nafnleysi á netinu. Mér þótti ánægjulegt að sjá að ritstjórn Eyjunnar hefur gert átak í þessum málum, enda hafa sumar athugasemdir verið fyrir neðan allar hellur. Sjálf tók ég ákvörðun fyrir nokkru um að loka á athugasemdir, því þótt margar séu skemmtilegar og gagnlegar þá hef ég engan áhuga á að skapa vettvang fyrir fólk sem ég þekki ekki til að vera með persónuárásir og bera út óhróður um fólk úti í bæ. Mér finnst töluvert annað mál þegar fólk sem bloggar undir nafni setur fram mál sitt, jafnvel þegar það skýtur föstum skotum, enda þarf það þá að bera ábyrgð á því.

Í Svíþjóð varð Carl Bildt að fjarlægja athugasemdir á bloggi sínu sem flokkuðust undir hatursorðræðu, en skv. þessu bloggi ber höfundur bloggs í Svíþjóð ábyrgð á því að fjarlægja slíkar athugasemdir. Fyrir umdeilda bloggara getur það orðið að fullu starfi. Það kom jafnvel til greina að Bildt yrði kærður skv. lögum um ráðherraábyrgð, þar sem tengill er af bloggi hans yfir á vefsíðu sænska utanríkisráðuneytisins og færslur hans eru vistaðar sem opinber skjöl.

Ákvörðunin sem voru tekin á t.d. Moggablogginu um að birta ábyrgðarmann skv. þjóðskrá á bloggum sem tengja við fréttir er skref í rétta átt. Vefurinn er frábært tæki sem eykur á fjölbreytni þeirra sjónarmiða sem komast í almenna umræðu. En það er líka mikilvægt að sýna fólki almenna virðingu. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Borgarahreyfingarinnar orðar þetta ágætlega, þar sem hún biður fólk sem skilur eftir athugasemdir að tjá sig "eins og það myndi gera ef við stæðum augnlitis til augnlitis." Ágætur bloggari, Hrannar Baldursson, telur að hertum viðurlög við skrifum á netinu séu hættuleg. Mér finnst það ekki; ég held einfaldlega að við þurfum að læra að setja ekki hluti fram nema við séum tilbúin til að taka persónulega ábyrgð á þeim orðum.
Setja á Facebook