23.9.09

mál að linni

Eftirfarandi grein eftir mig og Dóru Sif Tynes um Icesave birtist í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu í dag.

Icesave - nú er mál að linni
Íslenska ríkið stendur frammi fyrir því að mörg hundruð milljarða skuldbinding falli á tryggingasjóð innistæðueigenda, án þess að innistæða sé fyrir skuldbindingunni. Til þess að sjóðurinn geti staðið undir skuldbindingum sínum þarf ríkið að afla honum fjár með því að ganga til samninga við lánveitendur. Dómstólar hafa ekki skorið úr um skyldur íslenska ríkisins til að ábyrgjast tryggingasjóðinn. Þó verður að líta svo á að skyldur ríkisins samkvæmt EES-rétti til að innleiða með fullnægjandi hætti tilskipun um innstæðutryggingar geri það að verkum að íslenska ríkið verður að standa á bak við tryggingasjóðinn. Ítrekaðar yfirlýsingar íslenskra stjórnvalda á alþjóðavettvangi ýta undir þessa túlkun. Einungis með því að standa við alþjóðlegar skuldbindingar ríkisins og gæta jafnræðis innistæðueigenda, óháð búsetu, má gera sér vonir um að Ísland fái þá aðstoð frá alþjóðastofnunum sem þarf til að fara að vinda ofan af afleiðingum hrunsins.

Takmörkun á greiðslubyrði stendur
Megininntak fyrirvara fyrir veitingu ríkisábyrgðar með lögum nr. 93/2009 er að tryggja að komi til þess að það reyni á ábyrgðina verði greiðslubyrði ríkissjóðs ekki svo þungbær að endurreisn fjármálakerfis og efnahagslífs verði stefnt í voða. Ekki reynir á ríkisábyrgð á láninu ef tryggingasjóður innstæðueigenda stendur í skilum. Ef eignir sjóðsins duga ekki til er það lykilatriði að greiðslubyrði ríkisins verði ekki hærri en sem nemur ákveðnu hlutfalli af vexti vergrar landsframleiðslu. Íslendingar hafa ekki ákvarðað einhliða hversu mikið þeir greiða á ári hverju. Þessi uppstilling gerir það að verkum að það er hagur kröfuhafa að íslenska ríkið nái sér hratt út úr kreppunni, ella verður tæplega um fulla endurgreiðslu á lánunum að ræða á tilskildum tíma.

Skilið milli lána og ábyrgðar
Mikilvægt er að skilja á milli lánasamninganna annars vegar og ríkisábyrgðarinnar hins vegar enda er ríkisábyrgð ekkert annað en trygging fyrir tilteknum skuldbindingum. Það er Breta og Hollendinga að meta hvort ábyrgð skv. lögum nr. 93/2009 veiti fullnægjandi tryggingar fyrir láninu og þá jafnframt hvort unnt sé að líta svo á að á gildistíma laganna sé um fullnægjandi tryggingu að ræða. Verði lánið ekki að fullu greitt 2024 hafa lánveitendur væntanlega heimild til þess að gjaldfella eftirstöðvar enda er þá skilmálum lánasamnings - þ.e. að ríkisábyrgð sé fyrir hendi - ekki fullnægt. Íslenski löggjafinn hefur jafnframt á þessum tíma möguleika á því að lengja gildistíma ábyrgðarinnar ef þörf krefur eða leggja fram aðrar tryggingar sem kröfuhafar geta samþykkt.

Skuldbinding til staðar þótt ábyrgð falli niður
Breskum og hollenskum stjórnvöldum er í lófa lagið að samþykkja þau skilyrði sem Alþingi hefur sett við veitingu ríkisábyrgðar. Skuldbindingin samkvæmt lánasamningunum er til staðar óháð gildistíma ábyrgðarinnar enda miða lánasamningarnir við að skuldin verði að fullu greidd innan þess tíma. Nauðsynlegt er að hafa í huga að sjóðurinn mun hafa tækifæri til að afla sér fjár á gildistíma ábyrgðarinnar. Það er ekki óeðlilegt að bresk og hollensk stjórnvöld séu ekki tilbúin til þess að fallast á það að íslenska ríkið geti einhliða lýst því yfir að eftirstöðvar lánanna, ef einhverjar verða, muni falla niður að 15 árum liðnum. Vandfundinn er væntanlega sá kröfuhafi sem veitir samþykki fyrir slíkri ráðstöfun enda hefur skuldari þá tæplega mikinn hvata til þess að reyna að standa skil á láninu á lánstíma.

Dómstólaleiðin

Svokölluð dómstólaleið er alltaf opin fyrir þá innstæðueigendur sem telja sig vera hlunnfarna. Rétturinn til að fara með mál fyrir dómstóla er grundvallarmannréttindi og m.a. tryggður af ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu. Hvorki Bretar, Hollendingar né Íslendingar geta takmarkað þann rétt með samningum sín á milli. Réttarstaða flestra innstæðueigenda núna er sú að þeir hafa fengið greitt frá breska eða hollenska tryggingarsjóðnum og þar með framselt kröfur sínar til þeirra sjóða. Með því að ganga til samninga um hvernig endurgreiða eigi bresku og hollensku tryggingasjóðunum er því verið að koma í veg fyrir að afgreiðsla málsins dragist á langinn. Að auki vakna mun áleitnari spurningar með því að skjóta málinu til dómstóla, til dæmis um heimild íslenska ríkisins til að mismuna innstæðueigendum eftir búsetu. Komist dómstólar til að mynda að þeirri niðurstöðu að ríkinu hafi borið að tryggja allar innistæður að fullu, líkt og gert var hér á landi, verða skuldbindingarnar mun hærri. Málaferli til að skera úr um þetta munu að öllum líkindum leiða til þess eins að ríkinu verður áfram synjað um erlenda aðstoð og að endurreisnin dragist á langinn.

Mikilvægari verkefni blasa við
Alþingi og ríkisstjórn geta ekki snúið sér að því að sinna vanda heimila og fyrirtækja fyrr en þetta mál er frá. Í upprunalega samningnum var kveðið á um að hann skyldi staðfesta fyrir lok sumarþings. Þurfi að taka lögin aftur upp á þingi þýðir það að samningurinn fer í uppnám. Greiðslur erlendra lána halda áfram að frestast og ekki verður hægt að takast á við bráðan vanda. Með því að viðurkenna heimild lánveitenda til að gjaldfella eftirstöðvar samningsins um leið og ríkisábyrgðin rennur út, án þess að ætla að hafna því að greiða eftirstöðvar skuldanna, er hægt að loka málinu. Þá verður hægt að sinna þeim málum sem mestu máli skipta.
Setja á Facebook