29.9.09

kyn og kynlíf

Ég virðist hafa verið með kynlíf á heilanum í gær. Þess vegna ákvað ég að skoða kyn aðeins. Ég hef haft það á tilfinningunni að konum hafi verið að fjölga allmikið í hópi Eyjubloggara, og fagna því sérstaklega að fá Rósu og Kristínu hingað inn, enda klárar og skemmtilegar konur þar á ferð.

Gerði þess vegna smá úttekt. Það er algengt að konur séu milli 20-30 prósent viðmælenda í fjölmiðlum. Þegar þær eru orðnar meira en þriðjungur fer körlum gjarnan að finnast eins og það heyrist bara í konum (það eru til rannsóknir um þetta, ég nenni bara ekki að finna þær núna).

Mér sýnist vera komnir 100 Eyjubloggarar (og óska Eyjunni til hamingju með það). Sumir eru alveg óvirkir, sumir ekki byrjaðir að blogga (eins og til dæmis Anna netvinkona mín sem ég hvet til að hefjast handa) og sumir hafa ekki látið heyra í sér lengi (eins og til dæmis Obba og Arna), en þetta er fjöldinn.

Þar af eru konur nákvæmlega þriðjungur, eða 33. Svo eru sex hvorugkynsblogg (þar af eitt sem er klárlega skrifað eingöngu af konum og fyrir konur). Karlar eru áfram 60%. Það er reyndar óvenju lágt hlutfall karlmannsradda fyrir fjölmiðil, en ég hefði nú gaman af því að konurnar næðu að rjúfa 40/60 múrinn.
Setja á Facebook