30.9.09

þjónusta í lagi

Ég kom við í Erninum í fyrradag, af því ég var á bílnum að snattast aldrei þessu vant. Ætlaði að fá mér nýjan hjólahjálm. Hafði misst minn tvisvar, í annað skiptið brotnaði af honum derið og í hitt skiptið grindin sem stillir stærðina. Í staðinn fyrir að selja mér nýjan hjálm, upp á nokkra þúsundkalla, stakk strákurinn sem afgreiddi mig upp á því að ég kæmi með gamla hjálminn. Það hefði nefnilega verið galli í sendingu fyrir tveimur árum, og þetta gæti bara verið í ábyrgð.

Ég fór aftur í dag og sami strákurinn skipti eldsnöggt um grind (derið þarf ég ekki) og lét mig fá, án þess að það kostaði mig krónu. Gaf mér í leiðinni ráðleggingar um hvernig á að koma í veg fyrir að bremsurnar frjósi þegar fer að kólna (meira). Þetta er í fullu samræmi við aðra þjónustu sem ég hef fengið hjá Erninum, en ég keypti mér hjól þar í fyrra. Fór með það í stillingu í sumar, hafandi þá nýlega heyrt að með kaupunum ætti að fylgja stilling innan árs. Árið var liðið, en um leið og ég sagðist ekki hafa vitað þetta, þá fóru þeir yfir hjólið og gerðu sem nýtt án þess að rukka krónu. Þetta er sko leiðin til að búa til trygga viðskiptavini.
Setja á Facebook