13.9.09

fangelsi og fyrirgefning

Ég tók mér einn frídag í þessu ferðalagi sem er að ljúka. Notaði hann til að fara loksins í Stasi fangelsið, sem ég hef ætlað að skoða í öll hin skiptin sem ég hef heimsótt Berlín en ekki komið í verk. Þarna er boðið upp á 90 mínútna skoðunarferð með leiðsögn á ensku einu sinni í viku og ég rétt slapp inn. Ekki seinna vænna, en eftir tvo mánuði verða liðin 20 ár frá því múrinn hrundi.

Fangelsið er reyndar með þeim skárri sem ég hef séð í Austur-Evrópu. Ekki nándar nærri því eins svakalegir pyntingaklefar eins og t.d. í Vilníus, þar sem mér hreinlega varð óglatt undir lokin, þegar ég leit niður og sá að ég stóð á glergólfi og undir því mátti sjá ummerki morðs.

Í Hohenschönhausen* var mönnum haldið í gæsluvarðhaldi meðan rannsókn á "glæpum" þeirra fór fram. Leiðsögumaðurinn gerði létt grín að gamla kerfinu, benti á að austur-þýskum stjórnvöldum hefði verið mikið í mun að skapa sér trúverðugleika erlendis og þau hefðu því viljað sýna fram á að borgararnir byggju við réttarríki. Það að fangar fengju ekki að hitta lögmenn fyrr en eftir að rannsókn mála var lokið var talið smáatriði.

En þetta er ekki ástæða færslunnar, þótt skoðunarferðin hafi verið áhugaverð. Í lokin vakti leiðsögumaðurinn athygli okkar á því að á þessum tímapunkti væru gestir hans oft reiðir. Margir teldu óeðlilegt að þessu væri lýst sem liðinni tíð, því á hverjum degi væri fjöldi fólks í sambærilegum aðstæðum. Þjóðverjar teldu sig hins vegar heppna, að í þeirra tilviki væri þetta liðin tíð.

Fyrir marga væru aðstæðurnar auðvitað óþægilegar. Nokkrir leiðsögumannanna (aðallega þeir sem fara með þýskumælandi hópa í gegnum safnið) eru fyrrverandi fangar. Þeir lenda oft í því í hverfinu að rekast á fyrrverandi verði. Síðasti yfirmaður fangelsisins er t.d. enn íbúi þarna og fastagestur í næstu matvöruverslun. Það kemur víst oft fyrir að fangarnir spyrji Stasi-liðana hvort hinir síðarnefndu telji sig ekki þurfa að biðjast afsökunar. "Á hverju?" spyrja þeir þá gjarnan. "Þú vissir að það var ólöglegt að tala við útlendinga/fara yfir landamærin. Af hverju gerðirðu það? Ég braut ekkert af mér."

Þetta fannst mér athyglisvert. Nær ekkert sem Stasi-liðarnir gerðu var ólöglegt þegar þeir gerðu það. Örfáir hafa verið sakfelldir, og þá er það fyrir morð, enda skutu þeir flestir fólk sem var að reyna að fara yfir múrinn. Er þetta það sem er að gerast heima á Íslandi? Almenningur er reiður, vill afsökunarbeiðni fremur en flest annað en þeir sem leiddu þjóðina í þessar aðstæður horfa eingöngu á það að þeir hafi ekki brotið lög. Þetta lögformlega atriði er eflaust "öruggur staður að vera á", en ef ekki verður gert almennilega upp þá eigum við mörg eftir að spyrja hina svokölluðu útrásarvíkinga þessarar sömu spurningar langt fram eftir aldri. Það held ég að eigi ekki eftir að vera þjóðarsálinni hollt.

Að þessu loknu fór ég í gömlu höfuðstöðvar Stasi, þar sem Mielke réði ríkjum þar til múrinn féll. Það er svolítið eins og að fara inn í Bond-mynd frá áttunda áratugnum að koma þarna inn, myndavélar í vökvunarkönnum og hnöppum eru mest áberandi framan af. En ein lítil setning um fall múrsins og Stasi vakti athygli mína.

Þegar almenningur réðst inn í höfuðstöðvar Stasi og ætlaði sér að fletta hulunni ofan af þeim illvirkjum sem höfðu verið unnin þar. Stasi-liðar blönduðu sér í hópinn og voru fjölmennir í hópi þeirra sem leiddu innrásina í höfuðstöðvarnar. Þannig tókst þeim að beina athygli lýðræðissinna að þeim byggingum þar sem ómerkilegri gögn var að finna og tækifæri gafst til að fela/eyðileggja gögn sem voru meira virði.

Erum við í sambærilegri stöðu núna á Íslandi? Erum að bregðast við misvísandi yfirlýsingum og aðgerðum þeirra sem hafa hluti að fela? Það er a.m.k. þess virði að hafa það í huga þegar við erum að reyna að komast að því hvaða ákvarðanir leiddu til núverandi stöðu. Ég fékk í dag endanlega staðfestingu á þeirri tilfinningu minni að bankahrunið er algjörlega sambærilegt við samfélagsleg hrun af völdum styrjalda eða stjórnarfarsbreytinga í öðrum ríkjum. Ég vona að okkur beri gæfa til að læra af reynslu annarra þegar við vinnum úr þessu.

====

*Í myndinni Das Leben der Anderen eru senur sem sagt er að eigi sér stað í þessu fangelsi. Forstöðumaðurinn hafnaði hinsvegar umsókn framleiðenda um að fá að taka upp þar, því í myndinni er sagt frá Stasi-liða sem reyndi að aðstoða fangana. Engar vísbendingar eru um að neinn starfsmaður hafi reynt nokkuð slíkt og því var talið óeðlilegt að stuðla að því að gera söguna trúverðugri en hún er. Þetta þykir mér sýna töluverðan þroska þjóðarinnar (eða a.m.k. þessa einstaklings) og vera alveg laust við þá meðvirkni sem er svo áberandi heima.
Setja á Facebook

0 comments:

Post a Comment